Lögreglan hefur ekki haft samband við forsetafrúna þannig að embættið veit ekki hvort nafn hennar er á einhverjum vitnalista. Þetta kemur fram í svari frá Sif Gunnarsdóttur forsetaritara vegna fyrirspurnar Fréttablaðsins.

Eftir að Fréttablaðið skýrði frá því í síðustu viku að fyrrverandi starfsmaður embættisins hefði í júlí síðastliðnum kært samstarfsmann sinn vegna kynferðisbrots kom fram í DV að Eliza Reid forsetafrú væri á vitnalista vegna málsins.

Meintur þolandi sem bjó á Bessastöðum, líkt og hinn kærði, bar í Fréttablaðinu brigður á að embættið hefði brugðist sem skyldi við vanda í starfsmannahaldi um árabil. Það hefði komið honum í opna skjöldu að manninum hefði verið leyft að snúa aftur til starfa að loknu leyfi eftir örlagaríka skemmtiferð starfsmanna forsetaembættisins til Parísar 2018, þar sem atvik urðu sem leiddu til þess að embættið sendi manninn í leyfi og veitti honum skriflega áminningu.

Forsetaembættið sagði í svari við fyrirspurn blaðsins í liðinni viku að vegna skipulagsbreytinga yrðu störf tveggja starfsmanna sem hafa haft búsetu á Bessastöðum lögð niður.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu gefur á þessu stigi ekkert upp um kæruna.