Lög­reglu­stjórinn á Suður­nesjum hefur breytt verk­lagi sínu og styrkt rann­sóknar­deild em­bættisins eftir að mál fyrndist í með­förum em­bættisins. Þetta kemur fram á vef um­boðs­manns Al­þingis.

Lög­reglu­stjórinn á Suður­nesjum sagði að málið hafi fyrnst vegna anna í öðrum verk­efnum sem voru ofar í for­gangs­röðun em­bættisins. Um­boðs­manni Al­þingis hafði borist kvörtun vegna fyrningar máls sem var kært til em­bættisins árið 2015 vegna gruns um brot á hegningar­lögum.

Kærandi málsins fékk bréf 27. apríl síðastiðinn að málið hefði verið fell niður þar sem það taldist ekki nægi­lega lík­legt til sak­fellingar og að brotin væru nú fyrnd.

Lög­maður þess sem kvartaði kærði málið upp­haf­lega til ríkis­sak­sóknara þann 13. maí sem stað­festi niður­stöðu lög­reglu­stjórans og því var kvartað til um­boðs­manns Al­þingis.

Í svörum ríkis­sak­sóknara við fyrir­spurn setts um­boðs­manns kemur fram að ekki hafi verið óskað frekari skýringa frá lög­reglu­stjóranum eftir að af­staða ríkis­sak­sóknara lá fyrir í málinu. Ríkis­sak­sóknari tók það þó fram að hann teldi á­mælis­vert að sök í málum fyrndist í með­förum lög­reglu.

Í kjöl­far fyrir­spurnar um­boðs­mann sendi ríkis­sak­sóknari lög­reglu­stjóranum fyrir­spurn þar sem óskað var eftir upp­lýsingum um hvers vegna með­ferð málsins hafi stöðvast.

Kjartan Bjarni Björgvinsson er settur umboðsmaður Alþingis samhliða Tryggva Gunnarssyni kjörnum umboðsmanni.
Anton Brink.

Mikið álag á embættinu vegna fíkniefnamála

Í bréfi lög­reglu­stjórans á Suður­nesjum til ríkis­sak­sóknara er því m.a. lýst að mikið álag hafi verið á em­bættinu á árunum 2017-2019. Em­bættið hafi meðal annars hald­lagt mikið magn af „hörðum“ fíkni­efnum sem hafi krafist mikils af rann­sóknar­deild em­bættisins árið 2017.

Árið 2018 hafi komið upp nokkur stór saka­mál sam­hliða stór­felldum fíkni­efna­brotum og út­lendinga­málum í kringum Kefla­víkur­flug­völl sem em­bættið hafi þurft að setja í for­gang.

Árið 2019 hafi síðan verið for­dæma­laust ár í sögu em­bættisins varðandi inn­flutning á fíkni­efnum sem og margir sætt gæslu­varð­haldi. Fjár­muna­brot hafi á þessum tíma ekki fengið for­gang fram yfir mál þar sem aðilar sættu í­þyngjandi þvingunar­ráð­stöfunum, stór­felld fíkni­efna­laga­brot og of­beldis­brot.

Em­bættið harmi að það hafi þurft að for­gangs­raða málum þannig að rann­sókn og kærunni hafi stöðvast með þeim af­leiðingum að það fyrndist.

Lög­reglu­stjórinn á Suður­nesjum hefur því sem fyrr segir á­kveðið að styrkja rann­sóknar­deildina til þess að koma í veg fyrir að slíkt hið sama gerist aftur.

Í ljósi at­huga­semda ríkis­sak­sóknara og við­bragða lög­reglu­stjórans taldi settur um­boðs­maður ekki til­efni til að fjalla frekar um þennan þátt málsins enda gætu til­mæli hans að­eins orðið þau að bæta verk­lag.