Ríkissaksóknari telur að hvalveiðifyrirtækið Hvalur hf. hafi brotið reglur um vinnslu og heilbrigðiseftirlit á þriggja ára tímabili. Jónas Ottósson, lögreglufulltrúi hjá Lögreglunni á Vesturlandi, staðfestir að málið sé nú í rannsókn hjá embættinu.

Málið hófst í ágúst í fyrra þegar Ríkissaksóknara barst kæra frá náttúruverndarsamtökunum Jarðarvinum á hendur Hval hf. Eitt af kæruefnunum var að verkun Hvals á langreyðarkjöti væri ekki í samræmi við reglugerð ráðherra frá árinu 2009, það er, hvalurinn væri skorinn utandyra en ekki undir yfirbyggingu.

Matvælastofnun (MAST) gerði athugasemdir við fyrirtækið í eftirliti þrjú ár í röð, 2013 til 2015. Samkvæmt MAST gerði Hvalur úrbætur á skurðarsvæðinu eftir athugasemdirnar, svo sem með yfirbyggingu á hluta svæðisins þar sem kjötið var skorið og að koma upp fuglalínum.

Kristján Loftsson, eigandi Hvals hf, á aðgerðarplani fyrirtækisins árið 2010. Fréttablaðið/Anton Brink

Samkvæmt Freydísi Dönu Sigurðardóttur, fagsviðsstjóra hjá MAST, hafa þvingunarúrræði væntanlega verið í undirbúningi en ekki kláruð þegar hætt var að veiða árið 2016.

Hvalveiðar lágu niðri 2016 og 2017 en árið 2018 breytti Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegsráðherra reglugerðinni og felldi út skylduna til yfirbyggingar. Greint var frá því í fjölmiðlum að Kristján Loftsson, eigandi Hvals hf., hefði það ár sent Kristjáni bréf og beðið um að reglugerðinni yrði breytt.

Ríkissaksóknari fól Lögreglunni á Vesturlandi að rannsaka yfirbyggingarþátt málsins þremur dögum eftir að kæran barst en lögreglustjóri hætti rannsókn í desember í fyrra og vísaði til þess að MAST færi með eftirlitið.

Í apríl síðastliðnum felldi Ríkissaksóknari þá ákvörðun úr gildi eftir kæru Jarðarvina og fól lögreglustjóra að halda áfram rannsókn. Lögreglustjóri hætti rannsókn aftur í júlí, vísaði til fyrra bréfs og að rannsókn myndi ekki breyta sönnunarstöðu málsins í veigamiklum atriðum. Þegar Jarðarvinir kærðu þá ákvörðun í ágúst óskaði Ríkissaksóknari eftir afriti af gögnum málsins og röksemdum lögreglustjóra.

Ekki var fallist á röksemdir lögreglustjóra. Þann 15. nóvember felldi Ríkissaksóknari aftur niður ákvörðun hans um að hætta rannsókn og lagði fyrir hann á ný að ljúka henni.

Í afstöðuskjali ríkissaksóknara er sagt að ætla megi að Hvalur hf. hafi stundað hvalskurð á óyfirbyggðum skurðarfleti á því tímabili þegar það var skylt. Með reglugerðinni og lögum um hvalveiðar séu viðurlagaákvæði um sektir eða fangelsi allt að tveimur árum.

„Með vísan til þess sem að framan er rakið er að áliti ríkissaksóknara uppi grunur um refsiverða háttsemi af hálfu kærða,“ segir í skjalinu.

Ekki náðist í Kristján Loftsson fyrir vinnslu fréttarinnar.