Mál Lögreglunnar á Norðurlandi vestra, eftir að hún skutlaði farþega í Strætó, hefur ekki verið tilkynnt til Nefndar um eftirlit lögreglu og telur lögreglustjóri á Norðurlandi vestra, Birgir Jónasson, ekki þörf á því.
„Tel ég ekki ástæðu til, að svo komnu máli, þar sem lögreglumenn voru í góðri trú í umrætt sinn við að greiða götu borgara sem óskað hafði eftir aðstoð lögreglu,“ segir Birgir í svari til Fréttablaðsins um málið.
Greint var frá málinu í síðasta mánuði en farþeginn sem lögreglan skutlaði hafði samkvæmt vagnstjóranum ekki hlýtt því að koma aftur upp í vagninn í Blönduósi eftir að honum hafði verið tilkynnt að vagnstjórinn þyrfti að halda áætlun. Farþeginn fór inn í verslun þar til að kaupa sér pylsu og var í kjölfarið skilinn eftir. Þegar vagninn kom svo til Akureyrar á sinn lokaáfangastað var ráðist á vagnstjórann, en þó ekki af sama manni.
Eftir að málið kom upp sendi Strætó lögreglunni skriflegar spurningar sem að lögreglan svaraði. Í svari lögreglunnar, sem Fréttablaðið hefur undir höndum, kemur fram að ekki hafi verið tekin ákvörðun hjá lögreglunni að tefja för vagnsins til að koma manninum aftur um borð, heldur hafi lögreglan á Norðurlandi vestra haft samband við fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra sem hafði svo samband við stjórnstöð Strætó sem kom þessum skilaboðum til vagnstjórans.
Voru að greiða götu mannsins
„LNV hafði aldrei milliliðalaus samskipti við bifreiðarstjóra vagnsins,“ segir í svari lögreglunnar til Strætó og er áréttað að um beiðni eða ósk hafi verið að ræða. Þá er einnig tekið fram að upphaflega hafi staðið til að koma manninum aftur upp í vagninn á Sauðárkróki en það gekk ekki og var honum komið aftur upp í vagninn í Varmahlíð.
„Lögreglumenn voru í góðri trú og það var þeirra mat að þetta væri aðgerð til þess að greiða götu mannsins. Aðstoðarhlutverk lögreglu er nánar tiltekið eitt af hlutverkum lögreglu, en í því felst m.a. að greiða götu borgarans. Það er svo matskennt hverju sinni hve langt sú aðstoð nær og hverjar aðstæður eru. Dæmi eru um að vegalausu fólki hafi verið ekið á viðkomustað strætisvagns,“ segir enn fremur í svari lögreglunnar til Strætó.
Matskennt hverju sinni
Birgir Jónasson, lögreglustjóri á Norðurlandi vestra, segir í samtali við Fréttablaðið verklagi hafi ekki verið breytt eftir atvikið því að það sé matskennt hverju sinni og erfitt að draga ályktanir af því en að lögreglan þurfi að sinna hlutverki sínu við að greiða götu borgaranna og temja sér gagnrýna hugsun við störf sín.
Strætó spurði lögregluna hvort að það séu annað hvort verklagsreglur eða viðmið til staðar til þess að meta það hvort það sé óhætt að hleypa manni aftur í aðstæður sem gætu orðið hættulegar og vísaði til þessa tilviks en síðar í ferðinni var ráðist á vagnstjórann, en þó ekki af farþeganum.
Í svari lögreglunnar kemur fram að það sé háð mati lögreglunnar hverju sinni hvort að það sé einhver ógn til staðar og er sérstaklega tekið fram að ekki sé orsakasamband á milli þess að lögreglan hafi skutlað farþeganum aftur í vagninn og ætlaðrar líkamsárásar eða slagsmála sem síðar áttu sér stað á Akureyri. Það mál er til rannsóknar hjá Lögreglunni á Norðurlandi eystra og segir lögreglan ekki vísbendingar um að farþeginn sé grunaður um refsiverða háttsemi vegna líkamsárásar á starfsmann Strætó.