Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Akureyri, og Eyþór Þorbergsson, staðgengill lögreglustjóra, eru ekki vanhæf til að fara með rannsókn á meintum brotum blaðamanna gegn friðhelgi Páls Steingrímssonar, skipstjóra Samherja.

Landsréttur hefur staðfest niðurstöðu Héraðsdóms Norðurlands eystra í máli Þóru Arnórsdóttur, ritstjóra Kveiks.

Þóra er einn fjögurra blaðamanna sem fékk tilkynningu 14. febrúar síðastliðinn um að hafa réttarstöðu sakbornings við rannsókn á máli Páls.

Ummælin óheppileg

Þóra krafðist þess að lögreglustjóranum á Akureyri sem og staðgengli hennar, ásamt örðum starfsmönnum embættisins yrði vikið úr sæti við rannsókn á meintum lögbrotum í tengslum við símagögn Páls.

Héraðsdómur hafnaði kröfu hennar og kærði hún niðurstöðuna til Landsréttar sem hefur nú staðfest niðurstöðuna.

Þóra vísaði meðal annars til ummæla Eyþórs í greinagerð til dómstólsins. Ummælin þóttu óheppileg og óviðeigandi en ekki til þess fallin að valda vanhæfi við rannsókn málsins.

Fleiri látið reyna á lögmæti

Áður hafði Aðalsteinn Kjartansson, blaðamaður á Stundinni, látið reyna á lögmæti aðgerða lögreglunnar fyrir dómstólum. Aðalsteinn krafðist úrskurðar dómara um hvort heimilt væri að boða hann til skýrslutöku vegna málsins.

Mál Aðalsteins fór í gegnum dómstigin þrjú en var að lokum vísað frá dómi í Hæstarétt þann 16. mars síðastliðinn.

Eftir dóm Hæstaréttar í máli Aðalsteins hefði lögreglu ekki verið neitt að vanbúnaði að boða blaðamennina fjóra til yfirheyrslna hefði ekki verið fyrir nýja kröfu annars blaðamanns, Þóru, um meint vanhæfi lögreglunnar.