Lögreglan í London hefur heimilað það að töskur farþega verði fjarlægðar úr vél Icelandair sem varð fyrir höggi í gærkvöldi.

„Það er samt smá bið eftir því að komast að þeim þar sem við erum að bíða eftir öðrum ferlum varðandi þetta,“ segir Guðni Sigurðsson, upplýsingafulltrúi Icelandir „en við erum að gera okkar besta í að komast sem fyrst í töskurnar og koma þeim til farþega,“ segir hann.

Guðni segir að Icelandir hafi verið í samskiptum við farþega í dag og uppfært þá um stöðu mála. „við vorum að safna upplýsingum um heimilisföng um það hvert töskur eiga að fara. Þetta er allt saman vel undirbúið svo þetta ætti að ganga hratt fyrir sig um leið og við erum komin með töskurnar.

Guðni segir jafnframt að þeir farþegar sem fara áttu heim til Íslands með vélinni sem enn er föst á Heathrow flugvelli hafi fengið flug um hádegisbil í dag.

Enn hefur ekki verið fyllilega metið hver skaði vélarinnar er en sýnilegur skaði er á hliðarsstéli hennar. „Flugvirkjar verða bara að fá að skoða vélina og meta tjónið,“ Segir Guðni.