Lögreglu er ekki heimilt að notfæra sér gögn sem aflað er með ólögmætum hætti og almennum borgurum er ekki heimilt að fara í sjálfstæðar tálbeitu aðgerðir segir Ævar Pálmi Pálmason, yfirmaður kynferðisbrotadeildar lögreglu.

Þetta kemur fram í frétt RÚV nú í kvöld en mörg þúsund manns hafa fylgst með aðgerðum á samfélagsmiðlum þar sem tálbeita lokkar meinta barnaníðinga í gildru og birtir af þeim myndir.

„Það er alltaf hægt að skoða það hvort hægt sé að nota gögn sem aflað er með þessum hætti,“ sagði Ævar Pálmi í samtali við RÚV.

„Það rýrir þó trúverðugleika gagna þegar þeim er ekki aflað af lögreglu eða með lögmætum hætti,“ sagði hann og varar hann við því að almenningur beiti slíkum aðgerðum í leyfisleysi.

Upplýsingarnar voru birtar af notanda á samfélagsmiðlinum Tik Tok og hafa fjöldamargir skoðað þar myndbönd sem sýna meinta barnaníðinga. Aðganginum var þó lokað nýverið en hann hefur opnað aftur undir nýju nafni.

Þrátt fyrir þetta eru mörg myndbönd inn á aðganginum með meira en 75 þúsund áhorf.

Lögregla ein má beita tálbeitum

Lögreglu einni er heimilt að beita tálbeituaðgerðum og eru henni settar mjög þröngar skorður um það hvernig þeim er beitt. Mjög sjaldgæft er að lögregla fari í slíkar aðgerðir.

Samkvæmt reglugerð hjá Innanríkisráðuneytinu er tálbeita „lögreglumaður eða annar starfsmaður lögreglu sem fer með lögregluvald og hefur samskipti við sakborning sem grunaður er um að ætla að fremja refsivert brot og samskiptin leiða til þess að brotið er fullframið og/eða upplýsingar fást um deili á þeim sem fullframið hefur refsivert brot“

Ungur maður á bak við reikninginn

Heimildir RÚV herma að ungur karlmaður sé aðilinn sem stendur á bak við aðganginn á Tik Tok en hann hefur birt átta myndbönd þar sem hann lokkar yfirleitt eldri menn í gildru með því að senda þeim skilaboð í gegnum samfélagsmiðilinn Snapchat og þykjast vera ung stúlka.

Ævar segir ekki geta tjáð sig um það hvort mál séu til skoðunar hjá lögreglu sem birst hafa hjá aðganginum en lögreglan sé þó komin í samband við aðilann sem heldur úti Tik tok reikninginum.

Ævar bendir á að það geti verið varasamt fyrir almenning að fara út í aðgerðir sem þessar. „Það getur jafnvel haft alvarlegar afleiðingar með sér í för fyrir báða aðila. Þann sem leiddur er í gildru en jafnvel líka fyrir þann sem leiðir í gildru. Erlendis þá hafa þessar svokölluðu tálbeitur jafnvel lent í líkamsárásum og verið skaðaðar og einnig þeir sem hafa verið leiddir í gildru,“ segir Ævar Pálmi.