Lögreglan á Norðurlandi eystra varar við svikahrappi sem lýgur um umferðaróhapp.

Telur lögreglan að einhverjir óprúttnir aðilar noti sérstakt símaforrit til að hrekkja og ónáða fólk.

„Erum undanfarið búin að fá nokkrar tilkynningar frá fólki sem er búið að fá símtöl úr erlendu númeri þar sem að viðkomandi er sagður að vera eigandi af bifreið sem hafi lent í umferðaróhappi,“ lýsir lögreglan í færslu á Facebook.

Aðilinn sem hringir spyr á hvort manneskjan hinum megin á línunni vilji nokkuð fara með málið í gegnum tryggingar og biður um nánari upplýsingar varðandi bílinn. Fái aðilinn ekki upplýsingarnar verði hann reiður.

„Sá sem hringir verður mjög reiður ef því er neitað og hótar að gera meira mál úr þessu. Sá sem hringir hefur talað íslensku en mjög bjagaða að sögn tilkynnanda.“

Segir lögreglan þetta klárlega einhvers konar tilraun til svika.

Best að svara ekki

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem varað er við svikasímtölum frá glæpamönnum.

Forstöðumaður tæknideildar Póst- og fjarskiptastofnunar sagði í samtali við Fréttablaðið síðastliðinn febrúar að best sé að svara ekki í símann ef fólk þekkir ekki númerið sem hringt er úr.

„Á tímabili var hringt úr dýrum númerum og kom þá kannski bara ein hringing til þess að reyna að veiða fólk til að hringja til baka. Þá varst þú að greiða fyrir dýrt símtal sem þessir aðilar fengu hagnaðinn af,“ sagði Þorleifur Jónasson, forstöðumaður tæknideildar Póst- og fjarskiptastofnunar, um torkennilegar símhringingar.