Stúlka á höfuðborgarsvæðinu hefur orðið fyrir grófu neteinelti í gengum smáforritið TikTok síðasta árið. Eineltið lýsir sér þannig að nafn hennar og mynd er notuð til að skrifa ljót orð, og í mörgum tilfellum óhuggulegar athugasemdir, um aðra inni á forritinu.

TikTok nýtur mikilla vinsælda meðal ungmenna. Það gengur út á að búa til nokkurra sekúndna tónlistarmyndbönd þar sem notandinn tekur saman myndbands­klippur, syngur með og bætir við tæknibrellum. Notendur geta skilið eftir athugasemdir við myndbönd og einnig sent skilaboð. Þetta mál er ekki það fyrsta sem tengist TikTok hér á landi.

Hefur aldrei skráð sig á TikTok

„Þetta er búið að standa yfir í heilt ár. Það er send tilkynning til TikTok, þessu er hent út, en svo byrjar þetta aftur eftir tvo til þrjá mánuði,“ segir faðir stúlkunnar.

Hún hefur aldrei verið með reikning á forritinu og veit ekki hver eða hverjir standa þarna að baki.

Það eru dæmi um að fólk trúi því að hún sé á bak við skilaboðin. „Sumir halda það. Við höfum verið að fá skilaboð frá foreldrum þar sem þau vilja benda okkur á hvað dóttir okkar á að hafa verið að skrifa,“ segir faðirinn. „Um leið og við segjum að hún sé ekki á TikTok þá átta þau sig á hvað er í gangi.“

Málið er nú á borði lögreglu. Ríkarður Ríkarðsson, lögreglumaður hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir lögregluna ekki hafa mörg úrræði í málum sem þessum.

„Tölvurannsóknadeildin hjálpar okkur til að fá þær upplýsingar sem hægt er að fá. Við höfum fá úrræði. Við erum pínu lamaðir í þessu myndi ég segja,“ segir Ríkarður. Flókið getur reynst að fá persónuupplýsingar frá erlendum samskiptamiðlafyrirtækjum.

TikTok veitir upplýsingar á grundvelli dómsúrskurða

Í svörum TikTok við fyrirspurnum Fréttablaðsins segir að fyrirtækið geti afhent lögreglu upplýsingar um notendur en slíkt þurfi að vera í samræmi við lög. Notendur TikTok á evrópska efnahagssvæðinu fá þjónustu á Írlandi. Fyrirtækið geymir upplýsingar um stofnun reikningsins, þar á meðal IP-tölu, netfang og gerð farsíma. Lögregla getur óskað eftir að upplýsingarnar séu geymdar í 90 daga eftir að reikningnum er lokað, síðan þarf dómsúrskurð til að fá upplýsingarnar afhentar, nema það sé staðfestur grunur um að líf sé í hættu.

Ríkarður veit ekki hversu mörg svona mál koma inn á borð lögreglu árlega en reglulega rati þau á borð til hans. „Þetta eru nokkur mál sem koma inn á borð til mín á hverju ári. Í sumum málum náum við að finna upplýsingar sem hjálpa okkur við að leysa málið. Í þessu tilfelli þá er stúlkan ekki sjálf að nota TikTok, einhver annar er að nota hennar nafn sem bitnar á henni.“

Í þeim tilfellum sem það tekst að hafa uppi á þeim sem beitt hafa aðra neteinelti þá tekur við sama ferli hjá lögreglu og í öðrum málum. „Ef það er lögð fram kæra þá fer þetta í gegnum ákærusvið. Stundum fá menn sektir og stundum dugar að tala við þá sem þetta gera og þeir hafa hætt,“ segir Ríkarður. „Þeir vita allan tímann hvað þeir eru að gera, þetta byrjar kannski sem grín, en þeir eru ekki að hugsa um afleiðingarnar.“

Yfirlýsing frá TikTok

Fyrirtækið vill koma á framfæri yfirlýsingu í kjölfar fyrirspurna Fréttablaðsins um einelti og samskipti þess við lögreglu

„TikTok tekur öllum málum sem varða einelti og að villa á sér heimildir mjög alvarlega. Það kemur skýrt fram í viðmiðunarreglum okkar að við leyfum ekki efni á okkar miðli sem ætlað er að blekkja eða afvegaleiða notendur okkar, það á einnig við um að villa á sér heimildir.

TikTok skuldbindur sig til að aðstoða lögregluyfirvöld á sama tíma og við virðum friðhelgi notenda. Notendur á evrópska efnahagssvæðinu, þar á meðal Íslandi, fá þjónustu frá TikTok á Írlandi. Það þýðir að TikTok á Írlandi er ábyrgt fyrir því að vera í samskiptum við lögregluyfirvöld þegar kemur að beiðnum um notendaupplýsingar í samræmi við lög. Við getum ekki tjáð okkur um einstaka mál, en við höfum fengið beiðnir frá lögreglunni á Íslandi, rannsakað einstaka reikninga og fjarlægt þá.“