Lög­reglan á höfuð­borgar­svæðinu hefur til skoðunar óhugnanleg skila­boð sem hafa gengið manna á milli á samfélagsmiðlum þar sem fólk er varað við því að fara í mið­bæinn næstu helgi. Þar kemur fram að hópurinn sem varð fyrir á­rásinni á Banka­stræti Club síðustu helgi ætli að hefna sín og séu að skipu­leggja stungu­á­rás, bæði á dyra­verði sem og al­menna borgara.

Margeir Sveins­son, að­stoðar­yfir­lög­reglu­þjónn lög­reglunnar á höfuð­borgar­svæðinu, segir lög­regluna hafa heyrt af þessari fyrir­huguðu árás. Eins og sakir standa sé lög­regla að meta stöðuna.

„Við erum bara að meta þetta og skoða og teljum okkur vita svona nokkuð hvaðan þetta kemur. Þannig að við ætlum að reyna að stoppa þetta í fæðingu,“ segir Margeir.

Spurður um hvort aukinn við­búnaður verði af hálfu lög­reglu í miðborginni um helgina vegna þessa segist Margeir ekki geta sagt til um það á þessu stigi máls. Þá gat hann ekki tjáð sig um hvort lög­regla hvetji fólk til að halda sig frá mið­bænum næstu helgi.