Fyrr í þessum mánuði fannst hreyfihamlaður karlmaður á áttræðis aldri látinn í heitum potti í Breiðholtslaug.

Þetta kemur fram í frétt RÚV en banaslysið átti sér stað þann 10. desember síðastliðinn. Komið var að hreyfihömluðum manni sem var meðvitundarlaus í einum af heitu pottum laugarinnar en hafði að öllum líkindum legið meðvitundarlaus í pottinum í þrjár mínútur áður en gestir laugarinnar komu að honum.

Málið er nú til rannsóknar hjá miðlægri rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu og fer hún nú yfir efni úr eftirlitsmyndavélum sundlaugarinnar til þess að rannsaka hvað gerðist í aðdraganda andlátsins.

Sjö manns hafa drukknað hið minnsta í sundlaugum hér á landi síðustu rúm 25 árin en Hafþór B. Guðmundsson fyrrverandi lektor í íþróttafræði við Háskóla Íslands.sagði í samtali við RÚV að hlutir eins og þessir ættu ekki að gerast. „Það er skelfilegt að þetta skuli gerast og í stuttu máli þá á þetta ekki að geta gerst,“ segir Hafþór en hann hefur kallað eftir því að sérstök nefnd verði skipuð sem hefði umsjón með alvarlegum slysum í sundlaugum.

Hann segir í samtali við RÚV að langflestar stærri laugar landsins sé búnar öryggisbúnaði sem nemi þegar fólk liggur á botni lauga í um hálfa mínútu. Hann kveðst ekki vita hvort Breiðholtslaug sé svo búin.

Forsvarsmenn Breiðholtslaugar hafa enn ekki tjáð sig við fjölmiðla.