Ríkislögreglustjóri, Sigríður Björk Guðjónsdóttir, og fulltrúar hennar, funduðu með Blaðamannafélagi Íslands í gær. Félagið óskaði eftir samtali, eftir að starfsfólk á Keflavíkurflugvelli hamlaði störfum frétta- og tökumanns frá RÚV sem voru að reyna að mynda það þegar fimmtán einstaklingum var vísað úr landi í síðustu viku.

Sigríður Dögg Auðunsdóttir, formaður Blaðamannafélags Íslands, segist ánægð með fundinn og þann fjölda sem mætti á hann.

„Það kom skýrt fram að stéttin hefur áhyggjur af versnandi samskiptum blaðamanna og lögreglumanna,“ segir Sigríður Dögg, og að á fundinum hafi verið tekin önnur dæmi, auk þess atviks sem kom upp á Keflavíkurflugvelli í síðustu viku þar sem lögreglan hindraði störf blaðamanna.

Sigríður Björk Guðjónsdóttir ríkislögreglustjóri.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

„Ekki bara dæmið sem var tilefni fundarins heldur mörg dæmi þar sem ljósmyndurum og blaðamönnum er meinaður aðgangur að vettvangi. Það virðist ríkja ákveðið vantraust af hálfu lögreglunnar gagnvart stéttinni frétta- og blaðaljósmyndurum og við ítrekuðum að eitt mikilvægasta hlutverk blaðamennsku væri að veita aðhald. Til þess að geta gert það þurfum við aðgang að vettvangi og upplýsingum, en það kom einnig fram á fundinum að blaðamönnum hefur síðustu ár gengið erfiðlega að fá upplýsingar hjá lögreglu um mál sem eru til rannsóknar,“ segir Sigríður Dögg, og að á fundinum hafi komið fram margar tillögur og hugmyndir til úrbóta.

„Mér fannst eindreginn vilji hjá ríkislögreglustjóra og fulltrúum til að bæta þessi samskipti,“ segir hún og að Blaðamannafélagið muni fylgja hugmyndunum og tillögunum eftir.