Lögregla fór í dag fram á fjögurra vikna gæsluvarðhald yfir manni sem talinn er hafa stungið annan mann á Neskaupstað í nótt. Sá grunaði var leiddur fyrir dómara á Egilsstöðum síðdegis en dómari hefur tekið sér stuttan frest til að taka afstöðu til kröfunnar. Fyrst var greint frá fréttinni á RÚV.

Alvarlegir áverkar

Maðurinn sem hlaut stungusárið var fluttur með sjúkraflugi til Reykjavíkur þar sem hann gekkst undir aðgerð á Landsspítalanum. Líðan mannsins er sögð stöðug þrátt fyrir mikla áverka. Samkvæmt Facebook færslu systur mannsins er talið líklegt að hann verði vakinn síðar í dag.

Málið er rannsakað sem stórfelld líkamsárás, engir aðrir liggja undir grun en maðurinn sem hefur verið handtekinn. Beðið hefur verið um aðstoð tæknimanna frá rannsóknardeild lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu við rannsókn málsins.