Bandaríski stórleikarinn Chris Pratt sagði áhrifamikla sögu um líkfund á Skálafellsjökli í þætti Ellen Degeneres nú á dögunum. Pratt var staddur hér á landi í fyrra við tökur á kvikmyndinni The Tomorrow War.

Lögreglan á Suðurlandi kannast hins vegar ekkert við söguna.

„Mér er ekki kunnugt um þetta. Þetta hefði ekki farið fram hjá okkur ef einhver hefði fundið lík og tilkynnt um það. Það hlýtur að vera að slá saman einhvers staðar,“ segir Jón Garðar Bjarnason, lögreglumaður á Höfn í Hornafirði, í samtali við Fréttablaðið, og bendir á að slík saga hefði ábyggilega ekki farið fram hjá fjölmiðlum.

Elskendur sem féllu niður sprungu

Chris Pratt sagði í samtali við Ellen að líkin sem fundust hafi verið af elskendum sem höfðu fallið niður sprungu, sennilega milli áranna 1930 til 1940.

„Nokkrum vikum áður en við hófum tökur á jöklinum þá fannst par sem hafði fallið niður sprungu og höfðu verið þar í 80 ár. Því miður, þá lifðu þau ekki af. Þau voru fullkomlega varðveitt í fjallgönguklæðnaði sínum fra árinu 1940 eða 1930,“ sagði Pratt.

Ellen varð agndofa yfir sögunni og sagði hana ótrúlega. Það segir einnig lögreglan á Suðurlandi.

„Þetta hljómar eins og spennandi kvikmyndahandrit,“ segir Jón Garðar.

„Ég kannast ekki við þetta mál en sagan er góð,“ segir Oddur Árnason yfirlögregluþjónn á Suðurlandi. Hann segist þurfa að glugga í sagnfræðibækur til að finna sambærilegt mál á Íslandi. Ekkert sambærilegt mál hafi komið upp á síðustu árum á Íslandi og ekki á þeim slóðum þar sem Chris Pratt var við tökur.

Hér fyrir neðan má sjá viðtalið í heild sinni. Sagan byrjar á mínútu 5:20.