Faðir sem missti dóttur sína í skot­á­rásinni í Uvald­e í Texas á þriðju­dag segir að hann og aðrir for­eldrar hafi reynt að brjótast inn í Robb Elementary barna­skólann þegar byssu­skot byrjuðu að heyrast frá skólanum. Lög­regla hafi hins vegar haldið aftur af for­eldrunum og meinað þeim um inn­göngu.

Javi­er Cazares segist í sam­tali við The Was­hington Post hafa mætt fyrir utan skóla dóttur sinnar strax og hann frétti af því að það væri eitt­hvað á seyði í skólanum.

„Það voru fimm eða sex af okkur feðrum sem heyrðum byssu­skot og lög­reglan sagði okkur að halda okkur til baka. Við höfðum ekki á­hyggjur af okkur sjálfum. Við vildum brjótast inn í bygginguna. Við sögðum „Förum af stað“ af því við höfðum á­hyggjur og vildum reyna að ná börnunum okkar út.“

Að­eins nokkrum klukku­tímum síðar komst Javi­er að því að dóttir hans, Jack­lyn Cazares, hefði verið ein þeirra sem létust í á­rásinni. Hún var að­eins níu ára gömul.

Á­rásar­maðurinn, hinn 18 ára gamli Salvador Ramos, myrti ní­tján nem­endur og tvo kennara áður en hann var skotinn til bana af lög­reglu. Fyrr um daginn hafði hann skotið ömmu sína í and­litið sem lifði á­rásina af og gerði lög­reglu við­vart.

Að sögn Ste­ven McCraw, fram­kvæmda­stjóra al­manna­varna­deildar Texas, var Ramos í Robb barna­skólanum í um 40 til 60 mínútur áður en lög­reglu­mönnum tókst að yfir­buga hann.

Mynd­bönd sem sýna for­eldra í öngum sínum fyrir utan skólann í deilum við lög­reglu­menn hafa verið birt á sam­fé­lags­miðlum. Þar sjást for­eldrarnir biðla til lög­reglu um að ráðast inn í skólann eða hleypa þeim sjálfum inn.