Greiningardeild Ríkislögreglustjóra hefur ekki áhyggjur af því að andstæðingar bólusetninga beiti ofbeldi. Fylgst er þó vel með umræðu um sóttvarnir og bólusetningar.

„Heildarmyndin á Íslandi er þó sú að allur þorri landsmanna virðir og fer eftir tilmælum sóttvarnayfirvalda. Á þessum tímapunkti er, að mati greiningardeildar, ekki ástæða til að ætla að á næstu mánuðum verði breyting þar á,“ segir Runólfur Þórhallsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá greiningardeildinni.

Nokkur umræða hefur verið erlendis um hættu sem kynni að stafa af ofbeldi af hálfu andstæðinga bólusetninga við Covid-19. Í Bretlandi er hættan metin „alvarleg“, í Ástralíu „líkleg“ og „í meðallagi“ á Nýja-Sjálandi. Lögreglan á Nýja-Sjálandi metur hættuna mesta af einstaklingum knúnum áfram af öfgafullri hugmyndafræði.

Á mánudag gerði ítalska lögreglan húsleit hjá 17 manns í 16 borgum sem grunaðir eru um að hvetja til ofbeldis í garð Mario Draghi forsætisráðherra, lækna og fleiri sem bera ábyrgð á sóttvarnaaðgerðum. Hér á Íslandi hefur lögreglan í tvígang þurft að hafa afskipti af andstæðingum bólusetninga þó að ofbeldi hafi ekki verið beitt. Þann 29. júlí var öskrandi kona handtekin við Suðurlandsbraut þegar verið var að bólusetja þungaðar konur. Þann 24. ágúst þurfti lögreglan að vísa öskrandi manni frá Laugardalshöll þar sem verið var að bólusetja 12 til 15 ára börn.

„Gera má ráð fyrir að einhverjir einstaklingar geti fyllst reiði gagnvart þeim sem þeir telja að beri ábyrgð á þeim samfélagslegu hömlum sem til staðar eru hverju sinni og settar eru með lögmætum hætti í sóttvarnaskyni,“ segir Runólfur. „Ein birtingarmynd þessa eru til dæmis hótanir í garð þeirra er standa í framlínu sóttvarnaaðgerða.“

Hann segir þó stöðuna hér aðra en til dæmis í Ástralíu eða á Nýja-Sjálandi, þar sem ströngum aðgerðum hafi verið haldið uppi um langan tíma sem kunni að hafa áhrif á mótmæli. Aðstæður í hverju landi kunni að ráða nokkru um hverjar afleiðingar faraldursins verða innan viðkomandi ríkis. Svo sem styrkur heilbrigðiskerfis og viðbrögð stjórnvalda.

Bendir Runólfur á Þjóðarpúls ­Gallup frá því í október þar sem kom fram að 89 prósent landsmanna treysta heilbrigðisyfirvöldum og almannavörnum mjög eða frekar vel til að takast á við faraldurinn. Ekki megi þó loka augunum fyrir því að ástandið geti haft áhrif á andlega heilsu.

„Sóttvarnaráðstafanir og ótti við smitsjúkdóma geta haft neikvæð áhrif á andlega líðan margra, til dæmis, en ekki einvörðungu, einstaklinga sem tilheyra viðkvæmum hópum og mega illa við sýkingum,“ segir hann.