Vagnstjóri strætisvagnar var í morgun stöðvaður af lögreglu vegna gruns um að hann væri drukkinn undir stýri. Vagnstjórinn var látinn blása í áfengismæli og þá ekið brott á lögreglubíl. Þetta staðfestir Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó bs., við Fréttablaðið en Rúv greindi fyrst frá.

Vagninn var á leið 17 og var stöðvaður ofarlega á Laugavegi á tíunda tímanum í morgun. Engir farþegar voru í vagninum þegar lögregla stöðvaði hann.

Guðmundur segir að vagnstjórinn hafi ekið vagninum frá því klukkan 6:40 í morgun. Vagnstjórinn mun ekki eiga afturkvæmt í starf sitt hjá Strætó ef rannsókn lögreglu leiðir í ljós að hann hafi verið drukkinn undir stýri.

„Þetta er auðvitað mikið áfall. Ef rétt reynist þá er hann að stofna, ekki bara viðskiptavinum Strætó, heldur öllu nærumhverfi sínu í hættu,“ segir Guðmundur.

Aðspurður um hvers vegna lögregla hafi stöðvað vagnstjórann segist Guðmundur ekki hafa nákvæmar upplýsingar um það. „En ég hef heyrt að það hafi verið samstarfsmenn hans sem hafi grunað eitthvað og tilkynnt það.“

Guðmundur Heiðar Helgason, upplýsingafulltrúi Strætó.
Fréttablaðið/Stefán