Ekki hefur verið tekin formleg skýrsla af unglingsstúlkum sem gistu í Laugardalshöll um helgina meðan fótboltamótið Rey Cup stóð yfir.

Stúlkurnar komust sjálfar á snoðir um að eftirlitsmyndavélar tóku stöðugt upp í svefnsal þeirra er þær sáu svefnsal sinn á tölvuskjá sem stóð á vinnuborði í afgreiðslu.

Að sögn móður einnar þeirra var stúlkunum brugðið enda höfðu þær oft haft fataskipti og verið fáklæddar og jafnvel naktar í salnum.

„Við töluðum aðeins við þær í upphafi, en það virðist ekkert saknæmt hafa átt sér stað og bara um mannleg mistök að ræða,“ segir Guðmundur Páll Jónsson, lögreglufulltrúi hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, þar sem málið er til rannsóknar.

Aðspurður um upptökurnar og hve margir hafi aðgang að þeim segir Guðmundur að þær séu ekki aðgengilegar í gegnum netið. „Við ætlum að eyða öllum upptökunum en eiga afrit ef eitthvað kemur upp,“ segir hann. Rannsókn málsins er enn ólokið.Persónuvernd hefur ekki borist formleg kvörtun vegna Laugardalshallarmálsins að sögn Helgu Sigríðar Þórhallsdóttur, staðgengils forstjóra. Stofnunin getur hins vegar tekið mál til skoðunar að eigin frumkvæði.

„Við erum ekki búin að setja neitt af stað ennþá og erum svona aðeins að hinkra og sjá hvað kemur út úr rannsókn lögreglu,“ segir Helga Sigríður.

Persónuvernd tekur alla jafna ekki mál til skoðunar á sama tíma og þau eru til opinberrar rannsóknar annars staðar.