Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu braut persónuverndarlög við vinnslu persónuupplýsinga um Aldísi Schram.

Hörður Jóhannesson, fyrrverandi aðstoðarlögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, hafði án heimilda veitt Jóni Baldvini Hannibalssyni, föður Aldísar og fyrrverandi utanríkisráðherra og sendiherra, upplýsingar um kvörtun og afskipti sem lögreglan hafði af Aldísi.

Úrskurðurinn var kveðinn upp þann 27. ágúst á fundi stjórnar Persónuverndar.

Aldís hefur lengi haldið því fram að hún hafi verið ofsótt af lögreglu vegna valdastöðu föður hennar og tengsla og segir hún þennan úrskurð skýra það vel.

„Þetta er fyrsti sigur af mörgum. Ég mun fylgja þessu eftir,“ segir Aldís í samtali við Fréttablaðið.

Aldís sendi inn kvörtun vegna málsins til Persónuverndar í maí árið 2019 eftir að Jón Baldvin birti bréf frá Herði í heild sinni í blaðagrein í Morgunblaðinu um að hvorki hann né eiginkona hans Bryndís Schram, hefði kallað eftir lögregluaðstoð vegna Aldísar.

Aldís segir yfirlýsinguna vera ranga og að bréfið staðfesti að Jón Baldvin hafi haft lögregluna í vasanum.

Persónuvernd telur vinnslu lögreglu í málinu vera skýrt brot á lögum um persónuvernd og vinnslu persónuupplýsinga.

„Vinnsla Lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu á persónuupplýsingum um Aldísi Schram í tengslum við útgáfu og miðlun skjals, sem geymdi upplýsingar um að lögregla hefði haft afskipti af henni og sinnt verkefnum vegna hennar, samrýmdist ekki lögum nr. 77/2000, um persónuvernd og meðferð persónuupplýsinga og reglugerð nr. 322/2002.“

Aldís segir bréf Harðar vera ósatt.

Ráðuneytisstjóri hafi samþykkt ólögmæta lyfjagjöf

Líkt og áður kemur fram segir Aldís að yfirlýsing Harðar sé ekki einungis brot á lögum um meðferð persónuupplýsinga, heldur einnig ósönn. Jón Baldvin og Bryndís hefðu bæði óskað eftir aðstoð lögreglu.

Í kvörtun Aldísar til Persónuverndar kemur fram að Kolfinna Baldvinsdóttir, dóttir Jóns Baldvins, hafi ruðst inn í íbúð hennar í fylgd tveggja lögreglumanna með þeim tilgangi að handtaka hana og hafi það verið skráð sem „aðstoð við erlend sendiráð“ í málaskrá lögreglu.

Lögregla hafi sagt Aldísi vera í „nokkuð góðu jafnvægi“ en handtekið hana síðan tveimur dögum síðar og flutt hana með valdi á geðdeild þar sem hún segist hafa þurft að sæta ólögmætri þvingaðri lyfjagjöf sem samþykkt var með undirskrift „H.G.“ sem Aldís segir að sé Haukur Guðmundsson, núverandi ráðuneytisstjóri dómsmálaráðuneytisins.

„Ráðuneytisstjóri samþykkti nauðungarvistun mína sem var skrifuð að beiðni Jóns Baldvins, sem skrifuð er á bréfsefni Sendiráðs Íslands,“ segir Aldís.

Hún bendir á í kvörtun sinni að Bryndís Schram, móðir hennar, hafi einnig hringt á lögreglu árið 2002 og sé það skráð í skýrslu lögreglu. Því sé yfirlýsing Harðar ósönn. Þar að auki hafi Aldís verið handtekin í þrígang frá árunum 1994 til 2001 og það ekki skráð hjá lögreglu að hennar sögn.

Stefán Eiríksson, þáverandi lögreglustjóri og núverandi úvarpsstjóri.

Fundaði með Stefáni Eiríkssyni

Þar að auki hafi Hörður verið viðstaddur fund Aldísar með Stefáni Eiríkssyni, þáverandi lögreglustjóra og núverandi úvarpsstjóra þann 6. september 2013 þar sem hún lýsti aðförum lögreglunnar. Á fundinum voru einnig Margrét Schram, móðursystir Aldísar og Árni Stefán Árnason lögfræðingur.

Þá hafi Stefán fullvissað Aldísi að hún ætti ekki á hættu að verða handtekin og nauðungarvistuð. En hún hafði áður verið handtekinn eftir að hún kærði Jón Baldvin og hafði áhyggjur að slíkt myndi gerast aftur.

Síðar hafi hún lýst því yfir að hún hygðist sækja hann til saka.

Þeirri kæru var vísað frá af þeirri ástæðu að hún væri fyrnd. Sagðist lögreglan telja að hún væri einungis að tilkynna um meint kynferðisbrot Jóns Baldvins, en ekki að leggja fram kæru.

Vegna þess hafi ofangreindar handtökur og nauðungarvistanir ekki verið rannsakaðar.

Mætir óhrædd í meiðyrðamálið

Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá stefnir Jón Baldvin Aldísi fyrir meiðyrði og verður málið tekið fyrir í janúar á næsta ári.

Aldís segir að ef menn ætli að fara að lögum í þessu landi muni hún vinna öll sín mál.

„Ég mun mæta honum óhrædd í meiðyrðamálinu.“