Lög­regla í Beirút beitti tára­gasi á fá­mennan en harð­snúinn hóp mót­mælenda í grennd við þing­húsið í mið­bæ borgarinnar í gærkvöldi. Mikil reiði hefur brotist út meðal borgara eftir sprenginguna sem varð síðasta þriðju­dag þegar nærri 150 manns létust og um fimm þúsund slösuðust.

Í­búar í Beirút eru reiðir ríkis­stjórn landsins, Líbanon, og hafa kennt van­rækslu og spillingu stjórn­valda um sprenginguna. Mót­mæli brutust út í borginni í gær og safnaðist hópur fólks saman í ná­grenni þing­hússins og kveikti þar lítinn eld. Þá brutust út átök milli mót­mælenda og lög­reglu þar sem mót­mælendur köstuðu steinum í lög­reglu­menn sem beittu tára­gasi á móti.

Sam­kvæmt þar­lendum fjöl­miðlum slösuðust ein­hverjir í mót­mælunum. Ekki er þó tekið fram hversu margir né hvort ein­hverjir hafi slasast al­var­lega.

Stjórnvöld hafi vitað af aðstæðunum

Sprengingin varð síðasta þriðju­dag þegar eldur kom að gríðar­legu magni af ammoníum­nítrati, sem var geymt á hafnar­svæði borgarinnar. For­seti Líbanons hefur gefið út að 2.750 tonn af efninu hafi verið geymd í vöru­húsi við höfnina og að hús­næðið hafi ekki verið öruggt. Þeir sem kenna stjórn­völdum um sprenginguna segja að yfir­völd hafi vitað af efninu í ó­öruggu hús­næðinu án þess að bregðast við.

Daginn eftir sprenginguna til­kynnti ríkis­stjórnin að fjöldi hafnar­full­trúa á svæðinu hefði verið settur í stofu­fangelsi þar til rann­sókn á sprengingunni hæfist. Sex­tán hafa verið hand­teknir í tengslum við rann­sókn málsins.

Tveir em­bættis­menn í Líbanon hafa sagt af sér; þing­maðurinn Marwan Hama­deh sagði af sér síðasta þriðju­dag og í gær sagði sendi­herra Lebanon í Jór­daníu em­bætti sínu lausu. Hann sagði þar „al­gera van­rækslu“ stjórn­valda kalla á breytingar og nýtt fólk í æðstu em­bætti landsins. „Ég mun ekki taka þátt í að endur­byggja þetta land,“ sagði sendi­herrann.

„Þeir [stjórn­mála­mennirnir] skildu eftir að­eins störf og heimili fyrir okkur – og nú eru þau horfin. Ef eitt­hvað breytist munum við endur­byggja landið. Ef ekki, mun ég ekki taka þátt í því. Látið þá endur­byggja það.“

Frétt The Guardian um málið.