Anna Morris, verslunar­eig­andi í mið­bæ Reykja­víkur, segir þjófnað úr verslunum orðið gríðar­legt vanda­mál í mið­bænum. Lög­reglan sinni málunum illa og jafn­vel þó Anna finni sjálf út úr nafni og heimilis­fangi þjófanna að­hafist lög­reglan ekkert. Hún segir vanda­málið víð­tækt en búðar­eig­endur þori ekki að tjá sig um það af ótta við að opin­bera fyrir þjófum hve litlar af­leiðingar það hefur að standa í búðar­hnupli.

Anna rekur verslunina MJÚK Iceland á Laugavegi, litla verslun sem selur flíkur hand­gerðar af Önnu og fjöl­skyldu hennar. „Eins og alls staðar er alltaf eitt­hvað um þjófnað hjá okkur en í ár er þetta búið að vera alveg sér­stak­lega slæmt,“ segir hún í sam­tali við Frétta­blaðið.

Hóstaði að Önnu og sagðist vera með Covid

„Ég hef verið í sam­bandi við búðar­eig­endur í kringum okkur og staðan er eins hjá þeim en vanda­málið er að enginn hefur verið hand­tekinn eða þurft að mæta af­leiðingum af stuldinum,“ segir Anna. Hún segir að öryggis­mynda­vélar í verslun hennar hafi náð þó­nokkrum mynd­böndum af fólki sem hnuplar úr búðinni. Þegar hún verður vör við þetta þá hefur hún sam­band við lög­reglu.

„Ég legg fram kæru og fer eftir öllu verk­lagi í kringum svona mál. En það gerist aldrei neitt,“ segir hún. Í sumar hafi hún á­kveðið að taka málin í eigin hendur og birti mynd­band úr öryggis­mynda­vélum sínum á Face­book og bað um hjálp við að hafa uppi á konu nokkurri sem sást þar stela vörum úr búðinni. „Á innan við klukku­tíma höfðu nokkrir sett sig í sam­band við mig og allir bent á sama nafn. Ég var komin með nafnið á konunni, kenni­töluna hennar og heimilis­fang.“

Hún hafi þá látið lög­regluna hafa þessar upp­lýsingar en ekkert virðist hafa verið gert í málinu, jafn­vel eftir að konan kom aftur í verslun hennar og hafði í hótunum við Önnu vegna birtingar mynd­bandsins. Hún lenti þá í leiðin­legu at­viki í gær þegar konan kom aftur í verslunina hennar. Anna reyndi þá að reka hana á dyr nokkrum sinnum en áður en konan fór loks út hóstaði hún í áttina að Önnu og sagðist vera með Co­vid. Hún birti mynd­band af þessu á Face­book í gær.

„Ég hringdi strax í lög­regluna og hún var farin og sýndi þeim mynd­bandið. Þeir sögðu bara að ég þyrfti að leggja fram kæru á mánu­daginn og leggja mynd­bandið fram sem sönnunar­gagn,“ hún veltir fyrir sér til hvers, fyrst hin skiptin sem hún kærði konuna hafi ekki skilað neinu.

Lögregla segist fátt geta gert

„Ég hef rætt við yfir­menn innan lög­reglunnar um þennan vanda, sem er alls ekki bara bundinn við mig og mína verslun, heldur standa allar verslanir í mið­bænum frammi fyrir honum. Og oftast er þetta sama fólkið sem er að ræna okkur og við vitum öll hver þau eru og hvað þau heita. Lög­reglu­stjóri hefur sagt mér að þetta sé vanda­mál og að lög­reglan sé oft með bundnar hendur í svona málum því hún þurfi að fara eftir á­kveðnu verk­lagi og dóm­stólarnir taki oft ekki við svona litlum málum,“ segir Anna.

Hún á­kvað því að skrifa bréf til for­seta Ís­lands, for­sætis­ráð­herra og dóms­mála­ráð­herra en allir hafi þeir vísað aftur á lög­regluna og sagt málin eiga heima á hennar borði. Hún vill nú biðla til allra verslunar­eig­enda til að til­kynna um allan þjófnað til lög­reglu og skapa pressu svo að eitt­hvað verði gert í málunum.

Ágætu verslunareigendur í miðbænum. Nú er ljóst að þjófnaðir eru að verða að algjörri plágu í miðbænum og margar...

Posted by Anna Morris on Friday, 18 December 2020