Réttlæti á Íslandi getur verið misskipt þegar kemur að glæp og refsingu eftir því hver gerandinn er, ekki síst í kynferðisbrotamálum. Þetta sagði Þorbjörg Inga Jónsdóttir lögmaður á ráðstefnu á Hólum í Hjaltadal um helgina, sem bar yfirskriftina „Réttlætið í samfélaginu“.

Þorbjörg hefur í tuttugu ár sinnt réttargæslu fyrir mikinn fjölda kvenna sem kært hafa kynferðisbrot. Hún segir engan vafa leika á að kerfið fari í manngreinarálit eftir þjóðfélagsstöðu. „Ég upplifi að það skiptir mjög miklu máli hver þú ert og hver brýtur á þér í nauðgunarmálum. Ef þú ert hvítur karlmaður í góðum jakkafötum færðu betri framgang hjá lögreglu og dómstólum.“

Nái líka til barnaverndar

Lögmaðurinn segir að varðandi bæði brotaþola og grunaða sakamenn skipti einnig máli hvort viðkomandi sé Íslendingur eða útlendingur. Hreimur skipti máli við skýrslugjöf hjá lögreglu. Vantrú aukist með hreim. Ef þolandi sé með fíkni- eða geðheilbrigðissögu sé viðkomandi síður trúað. Barnaverndarkerfið umbuni líka hvítum miðaldra körlum, sérstaklega þeim sem klæðist bestu jakkafötunum.

Nauðgun númer tvö af hálfu ríkisins

Þorbjörg tók á ráðstefnunni dæmi um hlutskipti brotaþola eftir kynferðisbrot. Meðaltími rannsókna alvarlegra glæpamála svo sem nauðgunar geti orðið tvö til tvö og hálft ár hjá lögreglu. Síðan geti orðið allt að eins árs bið á ákærusviði. Þolandinn mæti því kannski fyrir dómstól allt að þremur og hálfu ári eftir glæpinn og bíði þá enn dóms. Í réttarhöldunum standi mikið og falli með því mati sem dómstóllinn leggi á sögu viðkomandi, sem dæmi hvort brotaþoli stami eða sé með heilkenni, sem dæmi horfi upp í rafmagnsljós sem kunni að hafa áhrif á viðkomandi. Ef þolandi sé svo heppinn að réttlætinu sé fullnægt með sektardómi sé oft gefinn mikill afsláttur af refsingu vegna þess hve langur tími sé liðinn frá broti. Þetta upplifi sumar konur sem aðra nauðgun af hálfu ríkisins.

Engin jafnréttisparadís í þessum efnum

Þessi töf á framgangi réttlætis er kemur að glæp og refsingu er algjörlega óboðleg að mati Þorbjargar, enda segi í 6. grein Mannréttindasáttmálans að brot skuli fá meðhöndlun „innan hæfilegs tíma“. Tilfinning Þorbjargar sé að þau mál sem taki hvað lengstan tíma hér á landi varði kynbundið ofbeldi. Aukið fjármagn vanti, fleiri lögreglumenn og breytt viðhorf samfélagsins til brota í nánum samböndum svo nokkuð sé nefnt. „Ég verð einstaklega pirruð þegar talað er um jafnréttisparadísina Ísland,“ segir Þorbjörg.

Fjögur mál hjá MDE

Fjögur mál eru nú í efnismeðferð hjá Mannréttindadómstóli Evrópu þar sem verið er að fjalla um niðurfellingu lögreglu á kærum vegna alvarlegra brota. Þar er verið að skoða hvort kerfið sé í raun að brjóta á brotaþolum, bæði með lögreglurannsókn og fyrir dómi. Í málunum munu vera sönnunargögn.

Þorbjörg segist einnig hafa rætt þá stöðu hvað mál taki langan tíma við marga dómsmálaráðherra. Hún bendir á að ef svikið sé undan skatti ljúki máli á nokkrum mánuðum. „Þarna kemur fram gildismat löggjafans og framkvæmdavaldsins. Að meira máli skipti að þau mál séu rannsökuð en brot gegn einstaklingum,“ segir Þorbjörg.

Töfin hafi fælingaráhrif

Hún nefnir eitt mál þar sem hún vann fyrir unga konu, þar sem dómur féll ekki fyrr en fjórum árum eftir að brotið var á henni. „Þessi stelpa er mjög hörð af sér en sagði samt: Ég myndi aldrei ráðleggja neinum að kæra eftir að hafa upplifað hve erfitt það er að hafa svona mál svo lengi hangandi yfir sér.“

Að réttlætisráðstefnunni á Hólum stóð Guðbrandsstofnun í samstarfi við ASÍ, ÖBÍ og Mannréttindaskrifstofuna. Sólveig Lára Guðmundsdóttir vígslubiskup hélt utan um stefnuna þar sem mörg þung orð féllu. Fréttablaðið var á staðnum og mun gera frekari grein fyrir því sem þar fór fram.