Lög­maðurinn Saga Ýrr Jóns­dóttir hefur sagt sig frá máli fjölmiðlamannsins Sölva Tryggva­sonar vegna hags­muna­á­rekstra. Þetta kemur fram í frétta­til­kynningu frá Sögu.

Eins og Fréttablaðið greindi frá í síðustu viku hafa tvær konur leitað til lögreglu vegna meints ofbeldis af hálfu Sölva Tryggva. Samkvæmt Kristrúnu Elsu Harðardóttir, lögmanni kvennanna, hefur önnur konan kært Sölva fyrir líkamsárás. sem hún kveður hafa átt sér stað á heimili hennar hinn 14. mars og hin konan kært hann fyrir meint kynferðisbrot á heimili hans hinn 22. júní 2020.

„Á sunnu­daginn fyrir viku síðan leitaði Sölvi Tryggva­son til mín og ég tók að mér af­markað mál fyrir hans hönd sem lög­maður. Á fimmtu­dag fékk ég svo sím­tal þar sem mér var til­kynnt að önnur kvennanna sem kærði Sölva á mið­viku­dags­kvöld er einn um­bjóð­enda minna í hóp­mál­sókn sem hefur verið í gangi í nokkur ár og er enn í rekstri fyrir dóm­stólum,“ segir í til­kynningu frá Sögu Ýr.

„Ég viður­kenni fús­lega að mér varð brugðið við þessar upp­lýsingar en við þá konu hef ég átt í góðum og miklum sam­skiptum sem lög­maður undir rekstri hóp­mál­sóknarinnar. Vegna þessa aug­ljósa hags­muna­á­reksturs er mér ekki annað fært en að segja mig frá máli Sölva og held því á­fram að vinna að hags­munum um­ræddrar konu í hóp­mál­sókninni í góðu sam­ráði við hana. Sölva sjálfan hef ég látið vita af þessari á­kvörðun minni og ég óska honum vel­farnaðar í sínum verk­efnum,“ segir í tilkynningu frá Sögu.

Fór út fyrir verksvið sitt með viðtalinu

Saga segir jafn­framt að undan­farin vika hafi verið henni mjög lær­dóms­rík.

„Ég hef áttað mig á að ég fór út fyrir verk­svið mitt sem lög­maður, lét til­leiðast og kom mér í að­stæður sem ég geri mér núna grein fyrir að ég hefði aldrei átt að vera í. Eftir að hafa horft á tíð­rætt pod­cast sem fór í loftið í síðustu viku er fátt annað í brjósti mér en að ég átta mig á að orð mín þar hafa sært ein­stak­linga og á því langar mig að biðja ein­læg­lega af­sökunar. Með því er ég alls ekki að taka af­stöðu til sak­leysis eða sektar Sölva heldur einungis að taka á­byrgð á minni fram­göngu.“