Lögmaðurinn Ómar R. Valdimarsson, sem fer með mál manns sem dvelur á sóttkvíarhótelinu, birti fyrir helgi færslu á Facebook-síðu sinni þar sem hann bauð fólki á hótelinu, sem vildi leita réttar síns, þjónustu sína endurgjaldslaust. Allur málskostnaður í slíkum málum fellur á ríkið.
Alls hafa að minnsta kosti sjö þeirra, sem dvelja á sóttkvíarhótelinu, ákveðið að láta reyna á lögmæti vistunarinnar fyrir dómi og fara nokkrir lögmenn með málin. Málflutningur fór fram í Héraðsdómi Reykjavíkur í dag og lauk honum um kvöldmatarleytið. Niðurstöðu í málunum er þó ekki að vænta fyrr en í fyrsta lagi á morgun.
Kostar fólk ekki að kæra frelsissviptinguna
„Ef einhver vill láta reyna lagaheimild á þvingaðari sóttkví í gúlagi stjórnvalda, við komuna til landsins, skal ég glaður reka málið fyrir viðkomandi án þess að rukka hana/hann um krónu,“ skrifaði Ómar á Facebook síðasta fimmtudag.
Ef einhver vill láta reyna lagaheimild á þvingaðari sóttkví í gúlagi stjórnvalda, við komuna til landsins, skal ég glaður reka málið fyrir viðkomandi án þess að rukka hana/hann um krónu.
Posted by Ómar R. Valdimarsson on Thursday, 1 April 2021
Af færslunni má ráða að það kunni að vera kostnaðarsamt að leita réttar síns fyrir þá sem eru látnir sæta íþyngjandi aðgerðum í þágu sóttvarna. Svo er þó ekki, þegar um frelsissviptingu er að ræða.
Með breytingum á sóttvarnalögum, sem samþykktar voru í febrúar, er þeim sem eru frelsissviptir á grundvelli ákvörðunar sóttvarnalæknis, heimilt að bera þá ákvörðun undir dómstóla. Í lögunum segir meðal annars: „Þóknun skipaðs talsmanns varnaraðila og annan málskostnað, þ.m.t. kostnað við öflun læknisvottorða og annarra sérfræðiskýrslna, skal greiða úr ríkissjóði.“
Fréttablaðið spurði Ómar hvort honum hafi yfirsést það að ríkið greiddi þóknun til talsmanns samkvæmt sóttvarnalögum, eða hvort lögmenn rukki yfirleitt skjólstæðinga umfram slíka þóknun. „Ég mun ekki rukka mína umbj. um krónu fyrir mín störf. Veit ekki með aðra lögmenn,“ svaraði Ómar skriflega en svaraði þar ekki fyrri spurningunni.
Uppfært: Í erindi til blaðsins eftir að þessi frétt birtist áréttar Ómar að það hafi ekki verið ætlun hans að blekkja neinn heldur hafi honum runnið blóð til skyldunnar þegar fréttir af sóttkvíarhótelinu komust fyrst í hámæli. Hann hafi aðeins viljað vekja athygli þeirra, sem málið var skylt, á að þeir þyrftu ekki að hafa áhyggjur af málskostnaði við að fara í svona mál.
Lögmaðurinn áður fengið áminningu
Í febrúar 2018 var Ómar áminntur af úrskurðarnefnd lögmanna fyrir að senda umbjóðanda sínum reikning vegna nauðungarvistunarmáls. Hann hafði þegar fengið 270 þúsund krónur greiddar í þóknun úr ríkissjóði eins og mælt er fyrir um í lögræðislögum.
Atvik málsins voru þau að Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu hafði fallist á kröfu velferðarsviðs Kópavogsbæjar um að umbjóðandi Ómars skyldi sæta nauðungarvistun á sjúkrahúsi vegna örlyndis og mögulegrar geðhvarfasýki. Konan skaut málinu til héraðsdóms og gætti Ómar hagsmuna hennar fyrir dómi.
Héraðsdómur staðfesti ákvörðun sýslumanns með úrskurði og var sá úrskurður staðfestur í Hæstarétti. Í úrskurði héraðsdóms var kveðið á um að þóknun Ómars, 148 þúsund krónur, greiddist úr ríkissjóði. Hæstiréttur bætti svo 124 þúsund krónum við þá þóknun.
Ómar taldi hina greiddu þóknun hins vegar ekki duga fyrir þeirri vinnu sem hann hafði lagt í málið en samkvæmt tímaskýrslu hafði hann unnið að málinu í 20 klukkustundir. Tímagjald hans var 23 þúsund krónur auk virðisaukaskatts. Hann gaf því út reikning til konunnar vegna aksturs og þeirrar upphæðar sem hann taldi vanta upp á, alls rúmar 325 þúsund krónur. Konan vildi ekki una þessu og kvartaði til úrskurðarnefndar og krafðist þess að reikningurinn yrði felldur niður.
Nefndin taldi að ákvörðun um þóknun talsmanns eða verjanda í lögræðismáli færi eftir ákvæðum lögræðislaga. Engin „lögbundin né samningsbundin stoð“ hafi verið fyrir umræddum reikningi og Ómar hafi ekki átt rétt á greiðslu hærri þóknunar en þeirrar sem dómstólar ákváðu.
Í niðurstöðu úrskurðarins segir einnig að háttsemi lögmannsins hafi ekki verið til þess fallin að „gæta heiðurs lögmannastéttarinnar“. Hann var því áminntur fyrir háttsemi sína.