Lög­maðurinn Ómar R. Valdimars­son, sem fer með mál manns sem dvelur á sótt­kvíar­hótelinu, birti fyrir helgi færslu á Face­book-síðu sinni þar sem hann bauð fólki á hótelinu, sem vildi leita réttar síns, þjónustu sína endur­gjalds­laust. Allur máls­kostnaður í slíkum málum fellur á ríkið.

Alls hafa að minnsta kosti sjö þeirra, sem dvelja á sótt­kvíar­hótelinu, á­kveðið að láta reyna á lög­mæti vistunarinnar fyrir dómi og fara nokkrir lögmenn með málin. Mál­flutningur fór fram í Héraðs­dómi Reykja­víkur í dag og lauk honum um kvöld­matar­leytið. Niður­stöðu í málunum er þó ekki að vænta fyrr en í fyrsta lagi á morgun.

Kostar fólk ekki að kæra frelsissviptinguna

„Ef ein­hver vill láta reyna laga­heimild á þvingaðari sótt­kví í gúlagi stjórn­valda, við komuna til landsins, skal ég glaður reka málið fyrir við­komandi án þess að rukka hana/hann um krónu,“ skrifaði Ómar á Face­book síðasta fimmtu­dag.

Ef einhver vill láta reyna lagaheimild á þvingaðari sóttkví í gúlagi stjórnvalda, við komuna til landsins, skal ég glaður reka málið fyrir viðkomandi án þess að rukka hana/hann um krónu.

Posted by Ómar R. Valdimarsson on Thursday, 1 April 2021

Af færslunni má ráða að það kunni að vera kostnaðar­samt að leita réttar síns fyrir þá sem eru látnir sæta í­þyngjandi að­gerðum í þágu sótt­varna. Svo er þó ekki, þegar um frelsis­sviptingu er að ræða.

Með breytingum á sótt­varna­lögum, sem sam­þykktar voru í febrúar, er þeim sem eru frelsis­sviptir á grund­velli á­kvörðunar sótt­varna­læknis, heimilt að bera þá á­kvörðun undir dóm­stóla. Í lögunum segir meðal annars: „Þóknun skipaðs tals­manns varnar­aðila og annan máls­kostnað, þ.m.t. kostnað við öflun læknis­vott­orða og annarra sér­fræði­skýrslna, skal greiða úr ríkis­sjóði.“

Frétta­blaðið spurði Ómar hvort honum hafi yfir­sést það að ríkið greiddi þóknun til tals­manns sam­kvæmt sótt­varna­lögum, eða hvort lög­menn rukki yfir­leitt skjól­stæðinga um­fram slíka þóknun. „Ég mun ekki rukka mína umbj. um krónu fyrir mín störf. Veit ekki með aðra lög­menn,“ svaraði Ómar skrif­lega en svaraði þar ekki fyrri spurningunni.

Uppfært: Í erindi til blaðsins eftir að þessi frétt birtist á­réttar Ómar að það hafi ekki verið ætlun hans að blekkja neinn heldur hafi honum runnið blóð til skyldunnar þegar fréttir af sótt­kvíar­hótelinu komust fyrst í há­mæli. Hann hafi að­eins viljað vekja at­hygli þeirra, sem málið var skylt, á að þeir þyrftu ekki að hafa á­hyggjur af máls­kostnaði við að fara í svona mál.

Lögmaðurinn áður fengið áminningu

Í febrúar 2018 var Ómar á­minntur af úr­skurðar­nefnd lög­manna fyrir að senda um­bjóðanda sínum reikning vegna nauðungar­vistunar­máls. Hann hafði þegar fengið 270 þúsund krónur greiddar í þóknun úr ríkis­sjóði eins og mælt er fyrir um í lög­ræðis­lögum.

At­vik málsins voru þau að Sýslu­maðurinn á höfuð­borgar­svæðinu hafði fallist á kröfu vel­ferðar­sviðs Kópa­vogs­bæjar um að um­bjóðandi Ómars skyldi sæta nauðungar­vistun á sjúkra­húsi vegna ör­lyndis og mögu­legrar geð­hvarfa­sýki. Konan skaut málinu til héraðs­dóms og gætti Ómar hags­muna hennar fyrir dómi.

Héraðs­dómur stað­festi á­kvörðun sýslu­manns með úr­skurði og var sá úr­skurður stað­festur í Hæsta­rétti. Í úr­skurði héraðs­dóms var kveðið á um að þóknun Ómars, 148 þúsund krónur, greiddist úr ríkis­sjóði. Hæsti­réttur bætti svo 124 þúsund krónum við þá þóknun.

Ómar taldi hina greiddu þóknun hins vegar ekki duga fyrir þeirri vinnu sem hann hafði lagt í málið en sam­kvæmt tíma­skýrslu hafði hann unnið að málinu í 20 klukku­stundir. Tíma­gjald hans var 23 þúsund krónur auk virðis­auka­skatts. Hann gaf því út reikning til konunnar vegna aksturs og þeirrar upp­hæðar sem hann taldi vanta upp á, alls rúmar 325 þúsund krónur. Konan vildi ekki una þessu og kvartaði til úr­skurðar­nefndar og krafðist þess að reikningurinn yrði felldur niður.

Nefndin taldi að á­kvörðun um þóknun tals­manns eða verjanda í lög­ræðis­máli færi eftir á­kvæðum lög­ræðis­laga. Engin „lög­bundin né samnings­bundin stoð“ hafi verið fyrir um­ræddum reikningi og Ómar hafi ekki átt rétt á greiðslu hærri þóknunar en þeirrar sem dóm­stólar á­kváðu.

Í niður­stöðu úr­skurðarins segir einnig að hátt­semi lög­mannsins hafi ekki verið til þess fallin að „gæta heiðurs lög­manna­stéttarinnar“. Hann var því á­minntur fyrir hátt­semi sína.