Arnar Þór Stefáns­son, lög­maður Kristjáns Viðars Júlíus­sonar, eins af sak­borningum í Guð­mundar-og Geir­finns­málinu, bendir í Face­book færslu á það sem hann kallar aug­ljósar stað­reynda­villur í máli Brynjars Níels­sonar, þing­manns Sjálf­stæðis­flokksins, um málið í út­varps­þættinum Reykja­vík Síð­degis.

Í þættinum sagði Brynjar meðal annars að mis­skilnings gætti hjá þjóðinni um að sak­borningar í málinu hafi verið dæmdir fyrir morð á sínum tíma og að Hæsti­réttur hafi sýknað þá þegar mál þeirra var tekið upp að nýju. Eins og Frétta­blaðið greindi frá krefst Kristján Viðar meðal annars 1,6 milljarða í skaða­bætur.

Sagði Brynjar meðal annars að allir virtust hafa gleymt því að sakborningarnir hefðu verið dæmdir fyrir margt annað enað hafa valdið dauða Guðmundar og Geirfinns. „Þeir voru ekkert sýknaðir af því,“ sagði þingmaðurinn.

Í Face­book færslu sinni bendir Arnar á fjórar full­yrðingar Brynjars og rekur það sem hann kallar aug­ljóstar stað­reynda­villur. Þá gerir hann jafn­framt at­huga­semd við það að Brynjar hafi ekki leið­rétt út­varps­menn þegar þeir á­vörpuðu hann sem hæsta­réttar­lög­maður. Hann sé ekki með virk réttindi.

„1) „Setja verður frum­varp svo að þetta fólk geti sótt ein­hverjar bætur“. Þetta er rangt. Bóta­réttur dóm­felldu, sem sýknaðir voru með dómi Hæsta­réttar 27. septem­ber 2018, er fyrir hendi, og þarf í reynd ekkert frum­varp til að mæla fyrir um þann rétt. Hins vegar fer vel á því að ríkið greiði a.m.k. inn á bóta­kröfurnar svo sem fyrir­ætlanin mun vera, sbr. hið ný­fram­komna frum­varp,“ skrifar Arnar.

Næst tekur Arnar orð Brynjars um að það sé misskilningur að Hæstiréttur hafi sýknað í málinu, heldur hafi það verið pólitíkin.

„Nú er það svo að endur­upp­töku­nefnd féllst á beiðnir dóm­felldu um endur­upp­töku málsins. Taldi nefndin full­nægt skil­yrðum til þess m.a. vegna nýrra gagna,“ skrifar Arnar.

Hann tekur fram að Hæstiréttur hafi metið það atriði sjálfstætt, það er að segja hvort niðurstaða nenfdarinnar hafi verið lögmæt og fallist á það

„Taldi Hæsti­réttur að skil­yrðum endur­upp­töku hefði verið full­nægt vegna nýrra gagna. Fyrir Hæsta­rétti á­kvað á­kæru­valdið, sem er ekki pólitískt, að krefjast sýknu og gerði það á grund­velli eigin mats á öllum gögnum málsins yfir­förnum, þ.m.t. hinum nýju gögnum. Hæsti­réttur féllst á þá kröfu og sýknaði,“ skrifar Arnar og heldur áfram.

„3) „Dóm­stólunum var ekkert gefinn kostur á að meta hvort þessi nýju gögn hefðu ein­hverja þýðingu í málinu“. Þetta er rangt. Hæsti­réttur féllst á þá niður­stöðu endur­upp­töku­nefndar að fram væru komin ný gögn sem ætla máttu að hefðu veru­lega miklu skipt fyrir niður­stöðu málsins ef þau hefðu komið fram áður en dómur gekk, sbr a-lið 1. mgr. 232. gr., sbr. áður 1. mgr. 215. gr., laga nr. 88/2008 um með­ferð saka­mála.

4) „Það sem ég er ekki sáttur við er að menn vegi svona að sjálf­stæði dóm­stólanna og taki bara pólitískar á­kvarðanir um að sýkna fólk og borga því bætur“. Þetta er rangt, sbr. svör í liðum 1) til 3) hér að ofan.“

Í lok færslunnar spyr Arnar hvort verði „ekki að gera þá lág­marks­kröfu að þing­maður, sem jafn­framt er lög­lærður, og sem virðist hafa ambis­sjónir til að vera dóms­mála­ráð­herra, fari rétt með framan­greind kjarna­at­riði málsins, og láti það ekki ó­á­talið að nefnt sé við hann að hann beri titil sem honum er að lögum ekki heimilt að nota?“