Magnús D. Norðdahl, lögmaður Kehdr fjöl­skyldunnar sem vísa átti frá landi í morgun, veit ekki hvar fjölskyldan er niðurkomin. Segist hann hafa heyrt fréttirnar á sama tíma og allir aðrir.

„Ég er bara að sjá fréttirnar núna. Ég hef ekki heyrt í þeim. Þau eru með slökkt á farsímum,“ segir Magnús í samtali við Fréttablaðið. Aðspurður hvort þetta flæki málin segir Magnús:

„Nei, þetta er bara sjálfstætt atriði. Ég er enn að melta þetta.“

Vita ekki hvar fjölskyldan er

Lögreglan tilkynnti í morgun ekki hafi verið hægt að framkvæma frávísun egypskrar fjölskyldu frá landinu. Var fólkið ekki á fyrirfram ákveðnum stað þar sem stoðdeild hugðist fylgja þeim úr landi.

„Ekki er vitað um dvalarstað fólksins. Málið er áfram á borði stoðdeildar ríkislögreglustjóra. Ekki er verða veittar frekari upplýsingar um málið að svo stöddu,“ segir í tilkynningu frá lögreglu.

Krefjast ógildingar á úrskurðum

Málið varðar sex manna fjöl­skyldu, hjónin Dooa og I­bra­him og börnin þeirra fjögur, en fjöl­skyldan dvalið hér á landi í rúm tvö ár. Þau flúðu til Ís­lands árið 2018 vegna of­sókna í Egypta­landi vegna þátt­töku I­bra­him í stjórn­mála­starfi. Kæru­nefnd hafnaði í gær að fresta brott­vísuninni í gær en Út­lendinga­stofnun synjaði fjöl­skyldunni um vernd í lok júlí í fyrra og mat að fjöl­skyldan væri örugg í Egypta­landi. Upp­runa­lega stóð til að þeim yrði vísað úr landi í febrúar en brott­vísuninni var frestað vegna kóróna­veirufar­aldursins.

„Þetta breytir engu efnislega um málið. Það verður látið reyna á þetta mál fyrir dómi þar sem krafist verður ógildingar á þeim úrskurðum sem þegar hafa fallið hjá kærunefnd og þeim úrskurðum sem enn eru væntanlegir,“ segir Magnús.

„Ég vek athygli á því að nefndin á enn eftir að svara formlega tveimur endurupptökubeiðnum í málinu.“