Við unnum og við töpuðum,“ segir Michael Machat, lögmaður Jóhanns Helgasonar í Bandaríkjunum, um niðurstöðu áfrýjunardómstóls í Kaliforníu vegna lagastuldarmálsins um lögin Söknuð og Your Raise Me Up.

Áfrýjunardómstóllinn staðfesti í fyrradag niðurstöðu fyrri dómstóls í Los Angeles um að vísa máli Jóhanns frá en jafnframt hafna kröfu andstæðinga hans um að hann greiddi þeim 323 þúsund dollara í málskostnað. Machat segir að vegna ósamræmis í aðferðarfræði dómstóla varðandi slík mál í mismundi fylkjum gæti mál Jóhanns fengist tekið fyrir í Hæstarétti Bandaríkjanna.

Ólíkar aðferðir við mat

Machat segir lykilatriðið hafa snúist um hvort dómstóllinn í Los Angeles ætti að hætta að styðjast við svokallaða „extrinsic“ prófun við mat á líkindum tónlistar og taka upp próf hins almenna hlustanda sem sambærilegur dómstóll í New York notar.

Dómstóllinn í Los Angeles dæmdi greinargerð tónlistarfræðings Jóhanns Helgasonar í heilu lagi úr leik því þar væri ekki að finna prófun þar sem Söknuður og You Raise Me Up væru borin saman við nótnablöð eldri lagasmíða til að greina að hversu miklu leyti þau gætu talist sjálfstæð verk sem varin væru með höfundarrétti.

Dómstóllinn í New York styðst ekki við „extrinsic“ prófun þegar kemur að tónlist heldur byggir matið þar á beinum samanburði á verkunum sjálfum eins og þau hljóma. Machat hélt því einmitt fram við meðferð málsins í Kaliforníu að New York-aðferðafræðin væri sú rétta fyrir tónlist en áfrýjunardómstóllinn segist ekki hafa heimildir til að víkja frá dómvenju við dómstólinn í Los Angeles nema að fyrir liggi fordæmi frá Hæstarétti Bandaríkjanna.

Ósamræmi gæti opnað dyr að hæstarétti

Machat segir þetta ósamræmi geta dugað til að hæstiréttur verði við ósk um að taka málið fyrir. Því fer þó fjarri að þar sé á vísan að róa því hæstiréttur tekur að hans sögn aðeins fyrir um áttatíu mál á ári. Þar af tengist um helmingur þeirra ríkisvaldinu.

„Þau hafa aftur á móti áhuga á að taka fyrir mál sem varða samræmi eða skort á samræmi í lögum innan Bandaríkjanna,“ segir Machat sem kveðst hafa kynnt sér dómsniðurstöður í sambærilegum málum fyrir dómstólnum í New York.

Niðurstaðan hefði orðið önnur í New York

„Það lítur út fyrir að ef við hefðum rekið málið fyrir dómstólnum í New York þá hefði niðurstaðan verið alveg öfug við þá sem við fengum í Los Angeles. Þetta er eitt af því sem hæstiréttur leitast við að forðast og er ástæða þess að ég tel að við gætum fangað athygli þeirra og fengið samþykki fyrir því að taka málið fyrir,“ heldur Machat áfram.

Lögmaðurinn undirstrikar að jafnvel þótt hæstiréttur tæki mál Jóhanns fyrir og hann myndi vinna fengi hann þar með aðeins rétt til að bera málið undir kviðdóm – eins og ætlunin var í upphafi en ekki fékkst því málinu var vísað frá. „Og þá gætum við enn tapað – eða við gætum unnið,“ bendir hann á.

Annar möguleiki fyrir Jóhann væri að leita aftur til áfrýjunardómstólsins og þá til að bera málið undir ellefu dómara í stað þriggja sem nú hafa afgreitt málið en Machat segir að jafnvel þótt það yrði samþykkt væri ólíklegt að sá dómstóll myndi breyta niðurstöðu sinni.