Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður Ingólfs Þórarinssonar eða Ingós Veðurguðs, var undrandi yfir sýknu í meiðyrðamáli Ingós gegn Sindra Þór Sigríðarsyni sem féll nú síðdegis í dag en hún mun ráðleggja Ingó að áfrýja dómnum.

„Ég er mjög undrandi, ég bjóst alls ekki við þessu,“ segir Auður Björg og bætir við að niðurstaðan hafi ekki verið á þá leið sem hún teldi réttast, málið færi til Landsréttar og það yrði að koma í ljós hvernig það fer.

Aðspurð hvað henni þætti skrýtið við niðurstöðuna segir Auður Björg skrýtið að sýkna á þeim grundvelli að einhver segi eitthvað og svo tveimur vikum síðar segi viðkomandi að hann hafi ekki verið að meina það heldur eitthvað annað.

Að sögn Auðar Bjargar væri eðlilegast að þeir sem ætla að vera með „svona gífuryrði“ standi við þau.

Sindri Þór var sem fyrr segir sýknaður af öllum kröfum Ingós í meiðyrðamáli sem hann höfðaði gegn Sindra Þór vegna ummæla sem hann lét falla á Internetinu.

Hann er einn þeirra fimm sem Ingó kærði vegna meintra ærumeiðandi ummæla á internetinu.

Sindri Þór lét ummælin falla á samfélagsmiðlum sumarið 2021 í kjölfar harðra ásakana sem fjöldi kvenna lét falla á hendur Ingó fyrir kynferðisbrot.