Auður Björg Jónsdóttir, lögmaður Ingólfs Þórarinssonar eða Ingós Veðurguðs, segir galið að áfrýja ekki niðurstöðu Héraðsdóms Reykjavíkur í meiðyrðamáli Ingós gegn Sindra Þór Sigríðarsyni sem sýknaður var í gær.

Auður Björg segir Ingó ekki búinn að taka ákvörðun um hvort hann áfrýi málinu og þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir hefur Fréttablaðið ekki náð tali af Ingó sjálfum í dag vegna málsins.

Sindri Þór var einn þeirra fimm sem Ingó sendi kröfubréf vegna meintra ærumeiðandi ummæla á Internetinu. Hann lét ummælin falla á samfélagsmiðlum sumarið 2021 í kjölfar harðra ásakana sem fjöldi kvenna lét falla á hendur Ingós fyrir kynferðisbrot.

Að sögn Auðar Bjargar var tveimur stefnt í kjölfarið, þar á meðal Sindra Þór, í vikunni fari fram fyrirtaka í síðara meiðyrðamáli Ingós á Akureyri.

Aðspurð telur Auður Björg að niðurstaða gærdagsins muni ekki hafa áhrif á síðara málið sem varða ummæli sem eru sambærileg þeim sem Sindri Þór lét falla. Hún telji dóminn ekki fordæmisgefandi.

Tjáningarfrelsi og einkalíf

Í dómnum kemur fram að ágreiningur máls lúti að því hvort Sindri Þór hafi með ummælum sínum farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis og brotið gegn einkalífsréttindum Ingós.

Umræða um mikilvæg þjóðfélagsmál geti notið aukinnar verndar og líta þurfi til þess hversu vel þekktur sá sé sem telji sig meiddan og frá hverju sé sagt.

Ásamt því að líta til fyrri háttsemi viðkomandi og hvert sannleiksgildi tjáningarinnar sé. Þá sé ekki nægilegt að horfa einungis til efni ummælanna heldur einnig líta til samhengis þeirra og til þess af hvaða tilefni þau hafi verið sett fram.

Framlag til opinberrar umræðu

„Af gögnum málsins er ljóst að þau ummæli stefnda sem mál þetta er sprottið af fólu í sér viðbrögð við orðræðu í þjóðfélaginu, meðal annars í grein Helga Áss Grétarssonar og í fréttum, um tildrög þessa að stefnandi var afbókaður á Þjóðhátíð og í kjölfarið umræðu í fjölmiðlum um framferði hans gagnvart ungum stúlkum.

Verður að játa stefnda rúmt frelsi til tjáningar um þetta tiltekna málefni og ekki er dregið í efa að ummæli hans, þótt óvægin séu, voru framlag til opinberrar umræðu um málefni sem getur varðað samfélagið miklu,“ segir jafnframt í dómnum.

Ingólfur Þórarinsson og Auður Björg Jónsdóttir í Héraðsdómi Reykjavíkur við aðalmeðferð málsins í byrjun maí.
Fréttablaðið/Sigtryggur Ari

Ummælin sett fram í góðri trú

Í dómi héraðsdóms kemur fram að telja verði líkur á að ummæli Sindra Þórs hafi verið sett fram í góðri trú um að þau væru sönn.

Er þar meðal annars vísað til spurningar sem Sindri Þór setti á Twitter-síðu sinni þar sem hann spurðist fyrir um hvaða vitneskju fólk hefði um að ungar stelpur þyrftu að passa sig á tilteknum þjóðþekktum tónlistarmanni í kjölfar umræðu um afbókun Ingós á Þjóðhátíð. Honum hafi borist fjöldi frásagna frá nafngreindum einstaklingum þar sem lýst var opinberlega hvernig Ingó hafi leitað eftir nánari kynnum við stúlkur á grunnskólaaldri.

Þá segir jafnframt að hafa þurfi í huga að ummælin hafi verið látin falla í skoðanaskiptum um brýnt samfélagslegt málefni, „sem lýtur að því hvaða ábyrgð þjóðþekktir og frægir einstaklingar skuli bera á háttsemi eins og að nýta áhrif sín og samfélagsstöðu til að eiga kynferðislegt samneyti við unga og óharðnaða einstaklinga.

Ekki í samræmi við dómaframkvæmd

Eftir dómsuppsögu málsins í Héraðsdómi Reykjavíkur í gær mátti sjá að niðurstaðan kom Auði Björg mjög í opna skjöldu en sjálfur var Ingó ekki á staðnum.

Aðspurð hvernig hún túlki dóminn segist Auður Björg ekki vita hvernig á að túlka hann, „hann er svolítið mótsagnakenndur í raun.“

Auður Björg segir það að ummælin hafi verið sett fram í góðri trú sé ekki í neinu samræmi við dómaframkvæmd. Hún vísar til Hlíðarmálsins svokallaða þar sem ummæli tveggja kvenna í tengslum við málið voru dæmd dauð og ómerk.

Sjálf segist Auður Björg ekki skilja hvernig athugasemdir á Twitter-þræði Sindra Þórs geti talist staðfesting á ummælunum, „þetta er bara svo algjörlega galið.“

Auður Björg segist aldrei hafa fengið jafn mikil viðbrögð við dómi líkt og í gær frá kollegum sínum, „það er alveg augljóst að fólki finnst þetta ekki rétt.“