„Ég ætla ekki að ræða hvað okkur hefur farið á milli,“ segir Logi Már Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, aðspurður um hvort hann hafi gert athugasemdir við þær rangfærslur sem voru að finna í yfirlýsingu Ágústar Ólafs Ágústssonar, þingmanns flokksins, um áreitni í garð Báru Huld Beck, blaðamanns á Kjarnanum.
Logi var upplýstur um málavexti af Báru sjálfri, auk þess sem þeir liggja fyrir í skýrslu trúnaðarnefndar Samfylkingarinnar, sem áminnti Ágúst Ólaf vegna málsins. Ágúst gekkst við hegðan sinni fyrir nefndinni.
„Það er rétt að hún [Bára] hafði samband við mig og ég upplýsti hana um þau úrræði sem við höfum, og hún fór eftir þeim. Í kjölfar úrskurðarins kallaði Ágúst okkur fyrir og þá vorum við öll upplýst um þetta. Síðan þá hef ég auðvitað brýnt fyrir honum að segja satt og rétt frá en hef engin afskipti að öðru leyti,“ segir Logi í samtali við Fréttablaðið.
„Við erum bara að melta þetta núna. Yfirlýsingin var einhliða frá honum og við sáum hana ekki fyrr en hún birtist.“
En í ljósi þess að þú vissir af rangfærslunum – gerðirðu athugasemdir við færslu Ágústar Ólafs?
„Ég sá yfirlýsinguna ekki fyrr en eftir að hún birtist.“
Gerðirðu athugasemdir eftir að hún birtist?
„Aftur – ég ætla ekki að tjá mig um það sem fór okkar á milli.“

Alvarlegt mál
Logi Már segir að um alvarlegt mál sé að ræða og að stjórnin muni koma saman á næstunni.
„Við höfum tekið þessu máli alvarlega. Þess vegna skipuðum við þessa trúnaðarnefnd til að fólk geti beint athugasemdum, kvörtunum og kærum og verið viss um að það fái hlutlausa og faglega meðferð,” segir hann.
Aðspurður um hvort málið hafi áhrif á stöðu Ágústar segir Logi að stjórnin ætli að hittast og ræða næstu skref. „Við erum bara að melta þetta. Við munum örugglega hittast, stjórn flokksins, og ræða við Ágúst. Það er erfitt að segja til um næstu skref, það er allt að gerast núna, en við tökum þessu máli mjög alvarlega og það er mjög brýnt að Ágúst fái þá aðstoð sem hann talar um að hann þurfi, og mikilvægt að Báru líði vel og nái að vinna úr þessu.“
Sjá einnig: Reyndi ekki að kyssa mig tvívegis heldur ítrekað
Ólík upplifun tveggja aðila
Blaðið hefur ekki náð tali af Ágústi Ólafi vegna málsins, en hann sendi frá sér stutta yfirlýsingu fyrir skömmu þar sem hann segir upplifun sína og Báru ólíka. Ætlunin hafi aldrei verið að rengja frásögn hennar eða að draga úr sínum hlut. „Ég lagði mikla áherslu á í okkar samtölum og í framburði mínum hjá trúnaðarnefndinni að gangast við minni hegðun. Hennar upplifun er auðvitað aðalatriðið í þessu máli,“ segir Ágústur og bætir því við að hann hafi leitað sér faglegarar aðstoðar vegna málsins, og ítrekar afsökunarbeiðni sína til Báru.
Líkt og greint var frá á föstudag sendi Ágúst Ólafur frá sér yfirlýsingu þar sem hann tilkynnti um að hann færi í tveggja mánaða launalaust leyfi frá þingstörfum vegna framkomu sinnar gagnvart konu sem hann hafi í tvígang reynt að kyssa, og svo látið særandi orð falla þegar hún hafi hafnað honum. Bára ritaði pistil á Kjarnann í dag þar sem hún sagði Ágúst ekki segja satt og rétt frá og gert lítið úr málavöxtum, en máli sínu til stuðnings vísaði hún til niðurstöðu trúnaðarnefndar Samfylkingarinnar, sem Ágúst Ólafur hafði gengist við.
Í niðurstöðunni segir að Ágúst Ólafur hafi endurtekið og í óþökk þolanda reynt að kyssa hana á starfsstöð hennar. Þá hafi hann niðurlægt hana meðal annars með niðurlægjandi og móðgandi athugasemdum um útlit hennar og vitsmuni, þear tilraunir hans báru ekki árangur. Þá taldi nefndin að Ágúst hafi með framkomu sinni sniðgengið stefnu Samfylkingarinnar gegn einelti og áreitni og bakað félögum sínum í Samfylkingunni tjón.