„Ég ætla ekki að ræða hvað okkur hefur farið á milli,“ segir Logi Már Einars­son, for­maður Sam­fylkingarinnar, að­spurður um hvort hann hafi gert at­huga­semdir við þær rang­færslur sem voru að finna í yfir­lýsingu Ágústar Ólafs Ágústs­sonar, þing­manns flokksins, um á­reitni í garð Báru Huld Beck, blaða­manns á Kjarnanum. 

Logi var upp­lýstur um mála­vexti af Báru sjálfri, auk þess sem þeir liggja fyrir í skýrslu trúnaðar­nefndar Sam­fylkingarinnar, sem á­minnti Ágúst Ólaf vegna málsins. Ágúst gekkst við hegðan sinni fyrir nefndinni. 

„Það er rétt að hún [Bára] hafði sam­band við mig og ég upp­lýsti hana um þau úr­ræði sem við höfum, og hún fór eftir þeim. Í kjöl­far úr­skurðarins kallaði Ágúst okkur fyrir og þá vorum við öll upp­lýst um þetta. Síðan þá hef ég auð­vitað brýnt fyrir honum að segja satt og rétt frá en hef engin af­skipti að öðru leyti,“ segir Logi í sam­tali við Frétta­blaðið. 

„Við erum bara að melta þetta núna. Yfir­lýsingin var ein­hliða frá honum og við sáum hana ekki fyrr en hún birtist.“ 

En í ljósi þess að þú vissir af rang­færslunum – gerðirðu at­huga­semdir við færslu Ágústar Ólafs? 

„Ég sá yfir­lýsinguna ekki fyrr en eftir að hún birtist.“ 

Gerðirðu at­huga­semdir eftir að hún birtist? 

„Aftur – ég ætla ekki að tjá mig um það sem fór okkar á milli.“

Alvarlegt mál

Logi Már segir að um al­var­legt mál sé að ræða og að stjórnin muni koma saman á næstunni. 

„Við höfum tekið þessu máli al­var­lega. Þess vegna skipuðum við þessa trúnaðar­nefnd til að fólk geti beint at­huga­semdum, kvörtunum og kærum og verið viss um að það fái hlut­lausa og fag­lega með­ferð,” segir hann. 

Að­spurður um hvort málið hafi á­hrif á stöðu Ágústar segir Logi að stjórnin ætli að hittast og ræða næstu skref. „Við erum bara að melta þetta. Við munum örugg­lega hittast, stjórn flokksins, og ræða við Ágúst. Það er erfitt að segja til um næstu skref, það er allt að gerast núna, en við tökum þessu máli mjög al­var­lega og það er mjög brýnt að Ágúst fái þá að­stoð sem hann talar um að hann þurfi, og mikil­vægt að Báru líði vel og nái að vinna úr þessu.“ 

Sjá einnig: Reyndi ekki að kyssa mig tvívegis heldur ítrekað

Ólík upp­lifun tveggja aðila 

Blaðið hefur ekki náð tali af Ágústi Ólafi vegna málsins, en hann sendi frá sér stutta yfir­lýsingu fyrir skömmu þar sem hann segir upp­lifun sína og Báru ó­líka. Ætlunin hafi aldrei verið að rengja frá­sögn hennar eða að draga úr sínum hlut.  „Ég lagði mikla á­herslu á í okkar sam­tölum og í fram­burði mínum hjá trúnaðar­nefndinni að gangast við minni hegðun. Hennar upp­lifun er auð­vitað aðal­at­riðið í þessu máli,“ segir Ágústur og bætir því við að hann hafi leitað sér fag­legarar að­stoðar vegna málsins, og í­trekar af­sökunar­beiðni sína til Báru.

Líkt og greint var frá á föstudag sendi Ágúst Ólafur frá sér yfirlýsingu þar sem hann tilkynnti um að hann færi í tveggja mánaða launalaust leyfi frá þingstörfum vegna framkomu sinnar gagnvart konu sem hann hafi í tvígang reynt að kyssa, og svo látið særandi orð falla þegar hún hafi hafnað honum. Bára ritaði pistil á Kjarnann í dag þar sem hún sagði Ágúst ekki segja satt og rétt frá og gert lítið úr málavöxtum, en máli sínu til stuðnings vísaði hún til niðurstöðu trúnaðarnefndar Samfylkingarinnar, sem Ágúst Ólafur hafði gengist við. 

Í niðurstöðunni segir að Ágúst Ólafur hafi endurtekið og í óþökk þolanda reynt að kyssa hana á starfsstöð hennar. Þá hafi hann niðurlægt hana meðal annars með niðurlægjandi og móðgandi athugasemdum um útlit hennar og vitsmuni, þear tilraunir hans báru ekki árangur. Þá taldi nefndin að Ágúst hafi með framkomu sinni sniðgengið stefnu Samfylkingarinnar gegn einelti og áreitni og bakað félögum sínum í Samfylkingunni tjón.