„Fyrst og fremst er það hlutverk mitt að Samfylkingin nái því markmiði sínu að mynda sterka ríkisstjórn sem getur leitt okkur í áttina að réttlátara og betra samfélagi,“ segir Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, sem vill stýra nýrri ríkisstjórn eftir kosningar. Hann segir ljóst að Samfylkingin geti ekki unnið með hverjum sem er. Ekki sé málefnanlegur grundvöllur fyrir samstarfi með Sjálfstæðisflokknum og Miðflokki. Þetta kemur fram í viðtali við Loga í Helgarblaði Fréttablaðsins.

Logi segir Samfylkinguna geta fundið sameiginlega fleti með öðrum flokkum byggi þeir á jöfnuði og réttlæti.

„Það getur verið ný stjórnarskrá, það getur verið skynsamleg auðlindanýting sem skilar fólki réttmætum arði. Það getur verið grunnþjónusta sem jafnar kjörin og gerir öllum kleyft að lifa sómasamlegu lífi. Ég held það sé bara mjög mikilvægt að fólk sem hefur nokkuð sameiginlega sýn á þessar stoðir vinni saman. Ég held að það geti verið eiginlega allir aðrir en þessir tveir flokkar sem ég nefndi,“ segir Logi.

Meiri hugur í flokksmönnum

Logi segir það velta á næstu kyn­slóð stjórn­mála­manna að sam­eina vinstri menn í einn flokk en áhugi á þátttöku í Samfylkingunni hafi glæðst á síðustu fjórum árum. Flokksmenn hafi nú sannfæringu fyrir því að Samfylkingin geti orðið kjölfestuafl. Það hafi aldrei verið nauðsynlegra en nú á umbrotatímum COVID-19 og hnattrænnar hlýnunar.

„Þá skiptir ofboðslega miklu máli að það séu rétt öfl sem stýra. Vegna þess að þau sem að ég er að berjast á móti, dag frá degi, þau eygja líka möguleika í þessari stöðu,“ segir Logi.

Mér finnst garðar með fjölbreyttum lággróðri sem blómstrar allt árið miklu fallegri en skrúðgarður með einu háu tréi sem varpar skugga á allt.

Aðspurður segist Logi óviss hvort sinn persónuleiki eigi þátt í þessum aukna áhuga. „En ég held að á þessu tímabili í sögu flokksins, hafi það að minnsta kosti verið kostur að ég er nógu æðrulaus og lítið upptekinn af hlutverkinu í sjálfu sér, þó ég taki það alvarlega, til þess að leyfa fólki að vaxa og blómstra í kringum mig,“ segir Logi. Það sé að gerast nú.

„Mér finnst garðar með fjölbreyttum lággróðri sem blómstrar allt árið miklu fallegri en skrúðgarður með einu háu tréi sem varpar skugga á allt.“

Logi er á persónulegum nótum í viðtalinu en ræðir einnig þá áskorun að reisa Samfylkinguna við eftir fylgishrun, samstarfið og samstarfsleysið í sundurleitri stjórnarandstöðu.