Flokksstjórnarfundur Samfylkingarinnar fer fram núna um helgina. Formaður Samfylkingarinnar, Logi Einarsson, flutti ávarp núna seinni partinn. Þar sagði hann að öll höfum við mismunandi sýn á lífið og það gerði tilveruna fjölbreytta og dásamlega en að aðstæður hvers og eins hafi áhrif á stöðu fólks. Hann sagði ástæðurnar geta verið margar, svo sem fátækt, sjúkdóma eða fordóma, en að Samfylkingin ætti erindi við allt þetta fólk.

Hann sagði að breytingar gerist ekki á stuttum tíma með einni aðgerðir, heldur með þrotlausri vinnu, samstöðu og stöðugs endurmats í síbreytilegum heimi og að þótt að Samfylkingin væri smá í alþjóðlegu samhengi gegndi hún mikilvægu hlutverki í alþjóðlegri hreyfingu.

„Nærtækasta verkefnið er auðvitað að tryggja jafnari og betri lífsskilyrði hér á landi en við þurfum líka að vera virkir samherjar í alþjóðlegri baráttu gegn stærstu ógnum samtímans: Ójöfnuði – ófriði og loftlagsvánni.“ 

„Æðruleysi og fórn almennings sem kom okkur í gegnum“ hrunið

Að því loknu fór Logi yfir það ástand sem ríkti hér í samfélaginu fyrir tíu árum þegar hér varð hrun.

„Það var þungt og erfitt verkefni að koma landinu í skjól, m.a. með erfiðum ákvörðunum sem Samfylkingin þurfti að taka í ríkisstjórn en reyndust afgerandi. Vissulega snerist vinna ríkisstjórnar Jóhönnu fyrst og fremst um að verja almenning; að bjarga því sem bjargað varð en þó einnig leggja grunninn að efnahagsbata, sem nú hefur skilað sér í fordæmalitlu hagvaxtarskeiði undanfarin ár,“ sagði Logi.

Hann sagði ýmislegt hafa unnið með Samfylkingunni, og öðrum, eins og að makríllinn hafi synt inn í lögsöguna og mikla aukningu ferðamanna á Íslandi. En síðast, og ekki síst, hafi það verið  „æðruleysi og fórn almennings sem kom okkur í gegnum þessa erfiðu tíma.“

Logi sagði síðan að þrátt fyrir þetta eigi enn eftir að klára stór mál. "..við gengum ekki í Evrópusambandið og tókum ekki upp stöðugri gjaldmiðil – náðum ekki að koma á fiskveiðistjórnunarkerfi sem skilar þjóðinni réttmætum arði og við búum enn við úrelta stjórnarskrá. Allt eru þetta mál sem eru enn mikilvæg og við munum berjast fyrir áfram.“

Hann segir að nú þegar „þjóðarskútan“ er komin á réttan kjöl skipti máli að stefnan sé tekin á samfélag sóknar og jöfnuðar og að átök stjórnmálanna næstu ára muni snúast um það hvert skulu næsta halda.

„Samfylkingin hefur skýra sýn á hvað þarf að gera og hefur allt aðra hugmynd um það en höfuðandstæðingur okkar á hægri vængnum. Þess vegna er mikilvægt að við náum vopnum okkar og  verðum nægilega stór til að mynda félagshyggjustjórn eftir næstu kosningar“

Bæta stöðu aldraðra, öryrkja og almenns launafólks

Hann sagði í ávarpi sínu að hér þurfi að koma á réttlátari skattbyrði til að draga úr vaxandi ójöfnuði og bæta þannig stöðu aldraðra, öryrkja og almenns launafólks og beita til þess klassískum aðferðum jafnaðarmanna. Það þurfi að vinna að upptöku evru og rétta hlut ungs fólks sem er að hefja búskap og að eignast börn.

„Þessi hópur verið skilinn eftir á hagvaxtarskeiði síðustu ára. Þau hafa ekki notið ávinning þess og eru læst inni á ómanneskjulegum húsnæðismarkaði; geta ekki keypt og varla leigt. Þetta er þó kynslóðin sem mun bera uppi íslenskt samfélag næstu áratugi og það er afgerandi að við búum betur að þeim ef við eigum yfir höfuð að geta vænst þess að þau hafi áhuga eða möguleika á að búa og starfa hér.“

Hann sagði að hér hafi allt of margir verið skildir eftir og ekki notið góðæris síðustu ára, þar með talið erlent vinnufólk. Logi segir að Samfylkingin taki einarða afstöðu með launafólki sem undirbýr kjarabaráttu í vetur og segir kröfu þeirra 50 þúsund sem búa á „ómanneskjulegum“ leigumarkaði skiljanlegar.

Hann sagði að nauðsynlegt sé að horfa langt fram í tímann, um nokkra áratugi, því við stöndum frammi fyrir fordæmalitlum samfélagsbreytingum.

„Þjóðin er að eldast og sífellt færri munu þurfa að standa undir aukinni verðmætasköpun. Gríðarlegar tækniframfarir og sjálfvirkni munu kollvarpa öllu hinu daglega lífi eins og við þekkjum í dag. Við munum ekki geta staðið gegn þeim og verðum að finna leiðir nýta þær okkur í hag – og það gætu þær vissulega gert.“

Verðum að bregðast við áður en áskoranir verða óviðráðanlegar

Verði ekki brugðist við þessum áskorunum gætu þær á endanum orðið óviðráðanlegar og það gæti leitt til hruns siðmenningar og stefnt öllu lífi á jörðinni í voða.

„Samfylkingin mun þess vegna taka fullan þátt í vinnu nýrrar framtíðarnefndar þingsins, sem ætlað er að draga upp nokkrar sviðsmyndir af Íslandi næstu áratugina. - En við munum jafnframt móta eins róttækar aðgerðir og þörf er á til að tryggja ávinning af þeim.“

Til þess þurfi að gera þrennt, það þurfi skýra umhverfisvernd með reglum og hvötum frá stjórnvöldum, fjárfesta í menntun og gera nýsköpun að lykilþætti í öllum atvinnugreinum og að endurhugsa skattkerfið með tilliti til breytinga á vinnumarkaði.

„Þegar mörg fyrirtæki munu geta framleitt vörur með færri vinnandi höndum, mun núverandi fyrirkomulag þar sem hver vinnustund er skattlögð, ekki duga.“

Að lokum sagði Logi að til að ná þeim markmiðum þyrftum við að vera framsækin, en ekki íhaldssöm og taka almannahagsmuni fram yfir sérhagsmuni.

„Abraham Lincoln sagði að besta leiðin til að spá fyrir um framtíðina væri að skapa hana – og við þurfum að hafa kjark til þess.“