Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, vill mynda ríkisstjórn eftir Reykjavíkurmódelinu og segir sterkar líkur á að það takist miðað við núverandi skoðanakannanir. Þetta er meðal þess sem fram kom í ræðu Loga á flokkstjórnarfundi flokksins í dag.
Þar sagði Logi núverandi ríkisstjórn bjóða upp á hrollvekjandi framtíðarsýn í fjármálaáætlun sinni til næstu ára. Hann segir að í stað þess að bæta almannaþjónustu og fjárfesta í fólki eiga að vera með niðurskurðarhnífinn á lofti.
„Það kann vel að vera að þetta óvenjulega stjórnarmynstur íhaldsflokka hafi hentað til að koma á pólitískum stöðugleika eftir skandala fyrri stjórna, en þessir flokkar munu ekki finna samhljóminn til að ráða við þau risastóru verkefni sem eru framundan. Málamiðlanir sem ósamstiga ríkisstjórn þarf að gera við hvert fótmál er ekki svarið við núverandi ástandi.“

Logi segir að því þurfi að greiða veginn fyrir nýrri ríkisstjórn sem væri óhrædd við nýja framtíð og opin fyrir því að nýta skapandi lausnir.
„Sem betur fer sjáum við í könnunum möguleika á þess konar stjórn. Stjórn sem Samfylkingin getur haft forgöngu um að mynda. Það má kalla það Reykjavíkurmódelið, R-lista konseptið eða Græna félagshyggjustjórn.“
Lagði hann áherslu á að Samfylkingin væri eini flokkurinn á þingi sem staðfastur er í baráttunni fyrir evru og minnti á að góður gangur í bólusetningum væri ekki síst Evrópusambandinu að þakka. Samfylkingin vilji kveikja í Evrópuhugsjóninni að nýju með því að gefa þjóðinni val um framhald aðildarviðræðna.
Segir Logi að Samfylkingin vilji nýja stjórnarskrá með skýru auðlindaákvæði. Það sé vegna þess að vaxandi munur sé á kjörum fólks. Hann segir muninn meðal annars drifinn áfram af óréttlátu fiskveiðistjórnunarkerfi sem færi fáum einstaklingum nýtingu á gjöfulum auðlindum langt inn í framtíðina, milli kynslóða án þess að þjóðin fái sanngjarnan skerf af eign sinni.