Fyrr í kvöld sendi fjölmiðlamaðurinn Logi Bergmann Eiðsson frá sér yfirlýsingu vegna frásagnar Vítalíu Lazarevu af kynferðisofbeldi. Vítalía sagðist í samtali við hlaðvarpið Eigin konur hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi af hálfu kærasta síns og þriggja vina hans í sumarbústaðaferð í desember í fyrra.

Fjórir karlar sem allir eru áberandi í viðskiptalífinu hafa tekið sér tímabundið leyfi frá störfum vegna málsins og er Logi einn af þeim.

Logi sagðist vera saklaus af öllum sökum sem á hann höfðu verið bornar en sagðist hinsvegar sekur um að hafa farið yfir mörk í einkalífi fólks með því að hafa farið inn í herbergi sem hann átti ekki að fara inn í.

Færslan vakti hörð viðbrögð og athugasemdir hrönnuðust inn. Meðal annars gerði Gabríela Bryndís Ernudóttir athugasemd við þá staðreynd að dómsmálaráðherra hefði „líkað“ við færsluna, en þá væri lítið að marka orð ráðherrans varðandi að trúa þolendum. Logi Bergmann hefur nú lokað fyrir athugasemdir og eytt þeim sem skrifaðar höfðu verið.

Skjáskot af athugasemdum við færsluna. Athugasemdum hefur nú verið eytt.
Gerðar voru athugasemdir við að Áslaug Arna dómsmálaráðherra hefði "líkað" við færslu Loga Bergmanns.

Fréttin var uppfærð 6. janúar, klukkan 23.49.