Logi Már Einarsson tilkynnir það í forsíðuviðtali í Fréttablaðinu í dag að hann gefi ekki kost á sér til áframhaldandi formennsku í flokknum, en landsfundur hans er í haust.

„Það stóð aldrei til af minni hálfu að vera lengi í þessu,“ svarar Logi og á við formennskuna, en það er til merkis um örlög norðanmannsins að hann hefur setið lengst allra á formannsstóli í tuttugu og tveggja ára sögu Samfylkingarinnar, „sem líklega enginn átti von á,“ hnykkir hann á – og brosið, eins og stundum áður, nær auðveldlega til augnanna.

„Það var augljóst eftir þingkosningarnar síðastliðið haust að flokkurinn uppskar ekki það sem liðsmenn hans vonuðust eftir og mér fannst þá gefið að ég myndi axla mín skinn,“ segir Logi og kveðst hafa tekið ákvörðun sína á þeim tíma – og hún hafi verið jafn einföld og hún var auðveld. „Ég ætlaði að hætta strax, en ég var hvattur til að bíða með þá ákvörðun, að minnsta kosti um sinn.“

Nú er umþóttunartíminn að baki. „Ég beið eftir hentugu tækifæri til að greina frá ákvörðun minni og núna er það runnið upp, með góðum fyrirvara fyrir landsfundinn í haust. Sumarið er að byrja – og þetta er rétti tíminn fyrir mig til að segja frá því að ég sé að hætta formennsku og þetta er líka rétti tíminn fyrir flokkinn til að undirbúa nýja forystu,“ segir hann einbeittur.

Hann kveðst kveðja sáttur, „alveg afskaplega sáttur,“ segir hann ákveðið og leggur áherslu á það með hreyfingu handa sinna. „En ég er auðvitað að axla ábyrgð. Við skulum ekkert horfa framhjá því. Ég er að hætta sem formaður af því að ég er sannfærður um að aðrir geti gert betur en ég,“ segir Logi og kveðst engu að síður geta horft stoltur um öxl.

„Mér finnst mér hafa tekist ágætlega upp í leiðtogahlutverkinu – og ef ég á að vera alveg ærlegur þá hefur mér tekist bara býsna vel að halda hópnum saman. Ég hef alltaf haft það að leiðarljósi í starfi og leik að virkja fólkið í kringum mig, enda finnst mér samvinna og samstarf alltaf skila betri árangri en að hlaða völdunum í kringum sig og hleypa helst engum öðrum að ákvarðanatökunni. Þannig hef ég aldrei viljað vinna,“ segir Logi Már Einarssoni í forsíðuviðtali helgarblaðs Fréttablaðsins.