Logi Bergmann, fjölmiðlamaður og útvarpsmaður á K100, fer í frí í kjölfar ásakana um kynferðisofbeldi. Hann lýsti því yfir í upphafi útvarpsþáttar síns og Sigga Gunnars klukkan 16 í dag að hann ætli í frí en tók ekki fram hversu lengi.

Siggi Gunnar spurði meðstjórnanda sinn hvernig hann hefði það og svaraði Logi:

„Ég hef verið betri en við ætlum að gera hérna útvarpsþátt. Ég hendi einum þætti í loftið núna og svo fer ég kannski í smá frí og við sjáum bara til hvað gerist.“

Eftir að Logi lauk máli sínu spilaði útvarpsstöðin lagið Waves með þýska plötusnúðnum Robin Schulz.

Logi er einn fimm manna sem hefur verið sakaður um kynferðisofbeldi gegn ungri konu. Allir mennirnir sem hafa verið nefndir hafa ýmist farið í leyfi eða stigið til hliðar.

Málið tengist frásögn hinnar 24 ára gömlu Vítaliu Lazarevu í hlaðvarpi Eddu Falak, Eigin konur, fyrr í vikunni þar sem hún segist hafa orðið fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu þáverandi kærasta síns og þremur vinum hans í bústaðarferð.

Sömuleiðis lýsti hún öðru aðskildu máli í golfferð þar sem hún segir vin þáverandi kærasta síns, þjóðþekktan mann, hafa gengið inn á þau. Kærastinn, sem var giftur maður, hafi viljað kaupa þögn vinarins með því að láta Vítaliu veita honum kyn­ferðis­legan greiða.

„Ég horfi framan í hann þegar vinur hans er að fara niður á mig og ég á að vera að fara niður á hann. Ég horfi í augun á honum, ég er farin að gráta og segi honum að ég vil þetta ekki. Hann segir við mig að þetta verði allt í lagi því hann er með mér,“ sagði hún.

Allir farnir í leyfi

Vítalia greindi frá því á Instagram í fyrra að kærastinn hafi verið Arnar Grant, einkaþjálfari hjá World Class og mennirnir í bústaðnum Hreggviður Jónsson, stjórnarformaður og aðaleigandi Vistor, Þórður Már Jóhannesson, stjórnarformaður Festar og Ari Edwald, framkvæmdastjóri Ísey útflutnings. Maðurinn sem hún segir að hafi gengið inn á hana og Arnar í golfferðinni hafi verið Logi Bergmann.

Ari Edwald óskað eftir að fara í leyfi í morgun, World Class staðfesti svo að Arnar Grant væri farinn í tímabundið leyfi og Hreggviður sendi svo frá yfirlýsingu að hann hefði á­kveðið að stíga til hliðar úr stjórn fyrir­tækisins og stjórnum tengdra fyrir­tækja. Stundin greindi frá því rétt í þessu að Þórð­ur Már hafi látið af störf­um að loknum stjórn­ar­fund­i.

Fréttin var uppfærð 6. janúar, klukkan 23.49.