Sýslu­maðurinn á Suður­nesjum lagði í gær lög­bann við því að þyrlu­fyrir­tækið Norður­flug lendi þyrlum sínum í landi Hrauns án sam­þykkis land­eig­enda. Um er að ræða gossvæðið í Geldinga­dal en Norður­flug hefur boðið upp á þyrlu­ferðir að gosinu frá því í mars.

„Lög­bannið var lagt á af því að menn mega ekki lenda flug­förum inni á eignar­landi nema með sam­þykki við­komandi land­eig­enda,“ segir Óskar Sigurðs­son, lög­maður land­eig­endanna.

Óskar segir leyfi loft­fara til lendingar ekki hluta af al­manna­rétti.

„Það er enginn að amast við frjálsri för al­mennings sem nýtur verndar í náttúru­verndar­lögum. Þetta mál lýtur ein­göngu að þyrlunum. Ef menn eru með þyrlu geta þeir á­fram flogið yfir en til að lenda þarf sam­þykki land­eig­enda,“ segir Óskar.

„Það er enginn að amast við frjálsri för al­mennings sem nýtur verndar í náttúru­verndar­lögum. Þetta mál lýtur ein­göngu að þyrlunum.“

Lögbannið var lagt á í gær og landeigendur hafa nú viku til að höfða mál fyrir héraðsdómi til staðfestingar lögbanninu.

Aðspurður um úrræði þyrlufyrirtækisins nú segir Óskar að til að fá að lenda loftfari á svæðinu þurfi að semja um það. Annað félag sem flogið hefur með fólk að svæðinu hefur þegar samið við landeigendur um lendingarleyfi.

„Félagið getur náttúrlega leyst málin með því að setjast niður með landeigendum og semja,“ segir Óskar.

Lögbannið tekur ekki til gönguferða almennings að gosinu, sem nýtur verndar náttúruverndarlaga.
Fréttablaðið/Anton Brink.

Fréttablaðið náði tali af Birgi Ómari Haraldssyni hjá Norðurflugi vegna málsins en hann sagði að félagið myndi ekki tjá sig um málið að svo stöddu.

Á vef Norðurflugs segir að fullbókað sé í ferðir að gosinu en fólk geti skráð sig á biðlista. Hver ferð að gosinu kostar 44.400 fyrir fullorðinn en 33.300 fyrir börn. Ekki er nú fjallað sérstaklega um lendingu á gossvæðinu á vef félagsins.

Gríðalegur áhugi hefur verið á gosinu allt frá því það hófst í febrúar. Þessi mynd var tekin við gosstöðvarnar í síðustu viku en þær taka stöðugum breytingum.
Fréttablaðið/Anton Brink