Heimför Kristins Teitssonar blaðamanns og Ernis Eyjólfssonar ljósmyndara frá Bretlandi tafðist vegna logandi trés. Þeir voru útsendarar Fréttablaðsins á Evrópumeistaramóti kvenna í knattspyrnu, en eftir að Stelpurnar okkar féllu úr leik í gær var komið að leiðarlokum.

Líkt og fjallað hefur verið um í vikunni er gríðarleg hitabylgja í Bretlandi um þessar mundir. „Ég man varla eftir svona hita,“ segir Kristinn en hitastigið hjá þeim í dag hefur nánast farið upp í fjörutíu gráður.

Félagarnir voru um borð í lest, á leið til London þegar þeir námu skyndilega staðar við lestarstöðina í Leighton Buzzard. Farþegar fengu fljótlega skilaboð um að óhapp hafi átt sér stað og stuttu síðar fengu þeir að vita að það væri tré á lestarteinunum.

Um það bil tíu mínútum síðar var þeim tilkynnt að kviknað hefði í trénu þegar verið var að fjarlægja það af teinunum. Því seinkaði lestinni enn meira. Eftir að hafa beðið í um það bil klukkutíma fóru þeir úr lestinni á sjálfa stöðina.

„Það var eins og að ganga vegg,“ segir Kristinn og á við um hitann. Hann segir að það hafi verið fínt í lestinni, en hitinn á lestarstöðinni, sem var opin í báða enda, var gríðarlegur.

Þegar þetta er skrifað eru Kristinn og Ernir staddir á flugvellinum í Luton, en hann komst í fréttirnar í gær þegar malbikið á flugbrautinni bráðnaði og var öllum flugum frestað fyrir vikið. „Völlurinn mun pottþétt bráðna aftur,“ segir Kristinn, sem segir veðrið hafa haft talsverð áhrif á ferðina, en nú er búið að fresta flugi þeirra félagana.