Logi Einarsson formaður Samfylkingarinnar og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins fóru í hár saman á Alþingi í dag í óundirbúnum fyrirspurnum.
Logi varpaði fram spurningu til ráðherrans um hvort hann ætlaði sér að veita héraðssaksóknara og ríkisskattrannsóknarstjóra aukið fé til að upplýsa mál Samherja. Logi sagði málið alvarlegt og til þess fallið að varpa rýrð á orðspor Íslands og önnur útgerðarfyrirtæki. Logi minntist á viðveru Íslands á gráa listanum.
Bjarni var ósammála Loga og sagði að sýn umheimsins á Íslandi ráðist ekki af einstaka málum heldur hvernig stjórnvöld taki á þeim.
„Það er alvarlegt mál þegar formaður stjórnmálaflokks stígur hér upp á Alþingi og telur það rétta lýsingu á landi okkar að því sé líkt við spillingarbæli,“ sagði Bjarni og sakaði Loga um að vera dramatískan. Hann sagði ótrúlegt að horfa upp á útleggingar Samfylkingarinnar síðastliðinn sólarhring um að rót vandans lægi hjá íslenska fiskveiðistjórnunarkerfinu.
„Að sjálfsögðu hef ég áhyggjur af þessu máli,“ sagði Bjarni og bætti við að það væri sjálfsagt mál að eftirlitsstofnanir fengju aukið fé yrði það nauðsynlegt.
Logi sagði að nauðsynlegt væri að horfa á stóra samhengið, að um væri að ræða kerfisbundin vanda. Málið væri ekki einstakt.
„Á 10 árum höfum við upplifað eitt efnahagshrun og ítrekaðan ímyndavanda vegna spillingar og aðgerðarleysis stjórnvalda. Ég skal nefna vafningsmálið, lekamálið, Orku energy, landsréttarmálið, Panamaskjölin, gráa listann sem við sitjum núna á,“ benti Logi á og bætti við að honum þætti það með ólíkindum að Bjarni skuli „drepa málinu á dreif með því að ásaka einn stjórmálaflokk um að taka málið alvarlega.“
Logi sagði Sjálfstæðisflokkinn alltaf hafa verið í nágrenni við „þau mál.“
Heitt varð í hamsi í umræðunum og var kallað úr sal og raddböndin þanin. Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingi, benti þingmönnunum á að þeir mættu halda rökræðunum gangandi í matsal.