„Ég tek bara undir þessar á­hyggjur og þær koma til af því að fólk er hrætt um að Land­helgis­gæslan geti ekki sinnt sínu lífs­nauð­syn­lega öryggis­hlut­verki fyrir fólk,“ segir Ás­laug Arna Sigur­björns­dóttir dóms­mála­ráð­herra í sam­tali við Frétta­blaðið.

Sjó­menn, sjúkra­flutninga­menn og jarð­vísinda­menn eru í hópi þeirra sem lýst á­hyggjum sínum af vinnu­stöðvun flug­virkja hjá Land­helgis­gæslunni. Fyrir liggur að frá og með mið­nætti á morgun verður engin þyrla til taks hjá Land­helgis­gæslunni í að minnsta kosti tvo daga.

Að­spurð hvort eitt­hvað hafi þokast í við­ræðum um nýjan kjara­samning í dag segist Ás­laug ekki hafa heyrt af því. Hún átti fund með Georg Lárus­syni, for­stjóra Land­helgis­gæslunnar í dag, þar sem meðal annars var farið yfir hugsan­legar lang­tíma­af­leiðingar ef kjara­deilurnar dragast á langinn.

„Hann ætlar að skila mér ítar­legri greiningu á lang­tíma­af­leiðingum ef þetta stendur lengur yfir. Við fórum svo yfir alla val­kosti og munum leita ýmissa leiða til að tryggja öryggi al­mennings og munum halda á­fram að skoða það í vikunni. Það er auð­vitað ljóst að það verður ekki með neinum hætti komið í veg fyrir þessa tvo daga,“ segir Ás­laug Arna og vísar til þess að engin þyrla verður til taks frá og með mið­nætti á morgun.

Málið var einnig til um­ræðu á fundi ríkis­stjórnarinnar í morgun. Að­spurð hvort til greina komi að setja lög á verk­fallið, segir Ás­laug Arna: „Það er ein af leiðunum sem hægt er að fara. Í ríkis­stjórn í dag ræddum við alla þá val­kosti sem eru uppi á borðunum og það er auð­vitað fyrst og fremst verk­efni okkar að tryggja öryggi við leit og björgun.“

Eins og að framan greinir eru Lands­sam­band slökkvi­liðs- og sjúkra­flutninga­manna, Sjó­manna­fé­lag Ís­lands, Fé­lag vél­stjóra og málm­tækni­manna og Sjó­manna- og Vél­stjóra­fé­lag Grinda­víkur í hópi þeirra fé­laga sem lýst hafa á­hyggjum sínum af yfir­vofandi vinnu­stöðvun. Þá vakti færsla sem Magnús Tumi Guð­munds­son jarð­eðlis­fræðingur skrifaði á Face­book-síðu Jarð­vísinda­stofnunar Há­skólans í dag tölu­verða at­hygli. Benti hann á að náttúru­ham­farir dynji oft yfir með stuttum fyrir­vara, eld­gos, snjó­flóð og ó­veður til dæmis.

Ás­laug Arna segist taka undir þessar á­hyggjur. „Við getum ekki teflt öryggis­málum al­mennings – og ekki síst sjó­far­enda – í tví­sýnu. Flug­virkjum stendur auð­vitað til boða sömu launa­hækkanir og aðrir opin­berir starfs­menn hafa fengið og það er miður að ekki hafi náðst að semja. Þegar ný lög voru sett um Land­helgis­gæsluna árið 2006 var tekið sér­stak­lega fram að verk­falls­réttur ætti ekki að hafa á­hrif á öryggis- og björgunar­hlut­verk Land­helgis­gæslunnar. Þess vegna skýtur það skökku við að þessi eina stétt geti lamað flug­starf­semi Land­helgis­gæslunnar með þessum hætti,“ segir hún.