„Ég tek bara undir þessar áhyggjur og þær koma til af því að fólk er hrætt um að Landhelgisgæslan geti ekki sinnt sínu lífsnauðsynlega öryggishlutverki fyrir fólk,“ segir Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra í samtali við Fréttablaðið.
Sjómenn, sjúkraflutningamenn og jarðvísindamenn eru í hópi þeirra sem lýst áhyggjum sínum af vinnustöðvun flugvirkja hjá Landhelgisgæslunni. Fyrir liggur að frá og með miðnætti á morgun verður engin þyrla til taks hjá Landhelgisgæslunni í að minnsta kosti tvo daga.
Aðspurð hvort eitthvað hafi þokast í viðræðum um nýjan kjarasamning í dag segist Áslaug ekki hafa heyrt af því. Hún átti fund með Georg Lárussyni, forstjóra Landhelgisgæslunnar í dag, þar sem meðal annars var farið yfir hugsanlegar langtímaafleiðingar ef kjaradeilurnar dragast á langinn.
„Hann ætlar að skila mér ítarlegri greiningu á langtímaafleiðingum ef þetta stendur lengur yfir. Við fórum svo yfir alla valkosti og munum leita ýmissa leiða til að tryggja öryggi almennings og munum halda áfram að skoða það í vikunni. Það er auðvitað ljóst að það verður ekki með neinum hætti komið í veg fyrir þessa tvo daga,“ segir Áslaug Arna og vísar til þess að engin þyrla verður til taks frá og með miðnætti á morgun.
Málið var einnig til umræðu á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun. Aðspurð hvort til greina komi að setja lög á verkfallið, segir Áslaug Arna: „Það er ein af leiðunum sem hægt er að fara. Í ríkisstjórn í dag ræddum við alla þá valkosti sem eru uppi á borðunum og það er auðvitað fyrst og fremst verkefni okkar að tryggja öryggi við leit og björgun.“
Eins og að framan greinir eru Landssamband slökkviliðs- og sjúkraflutningamanna, Sjómannafélag Íslands, Félag vélstjóra og málmtæknimanna og Sjómanna- og Vélstjórafélag Grindavíkur í hópi þeirra félaga sem lýst hafa áhyggjum sínum af yfirvofandi vinnustöðvun. Þá vakti færsla sem Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur skrifaði á Facebook-síðu Jarðvísindastofnunar Háskólans í dag töluverða athygli. Benti hann á að náttúruhamfarir dynji oft yfir með stuttum fyrirvara, eldgos, snjóflóð og óveður til dæmis.
Áslaug Arna segist taka undir þessar áhyggjur. „Við getum ekki teflt öryggismálum almennings – og ekki síst sjófarenda – í tvísýnu. Flugvirkjum stendur auðvitað til boða sömu launahækkanir og aðrir opinberir starfsmenn hafa fengið og það er miður að ekki hafi náðst að semja. Þegar ný lög voru sett um Landhelgisgæsluna árið 2006 var tekið sérstaklega fram að verkfallsréttur ætti ekki að hafa áhrif á öryggis- og björgunarhlutverk Landhelgisgæslunnar. Þess vegna skýtur það skökku við að þessi eina stétt geti lamað flugstarfsemi Landhelgisgæslunnar með þessum hætti,“ segir hún.