Loftvarnaflautur ómuðu þegar ökumenn fengu skilaboð um hættulega loftárás í sænska héraðinu Blekinge í gær. Engin hætta átti sér þó stað heldur var um mistök að ræða. Samgönguyfirvöld í Svíþjóð hafa málið til rannsóknar hjá sér. Sænska ríkissjónvarpið greinir frá þessu.
Ökumönnunum sem fengu skilaboðin um hættulegu loftárásina var skiljanlega brugðið. Hvorki sænski herinn, né umferðarritstjórn sænska útvarpsins vissu af skilaboðunum en svo virðist vera að skilaboðin hafi borist frá sænsku samgöngustofunni.
„Við vitum ekki hvers vegna viðvörunin fór út, en við erum byrjuð að rannsaka þetta núna,“ segir upplýsingafulltrúi sænsku samgöngustofunnar, Katarina Wolffram, í samtali við SVT.
Hún segir málið vera alvarlegt og að þetta séu mistök sem megi ekki gerast aftur og segir ekki útilokað að utanaðkomandi aðili ráðist á Svíþjóð.
Svíar eru í dag í miðju umsóknarferli að NATO, ríkið vonast til þess að fá inngöngu í bandalagið ásamt Finnum en ríkin tvö eru nágrannar Rússlands og sækja því Svíar og Finnar í skjól til NATO.