Loftvarnaflautur í Úkraínu eru orðnar hluti af hversdagslegu lífi Úkraínumanna, enda er stríðið þar á níunda mánuði og hafa loftárásir Rússa komið í bylgjum á þeim tíma. „Þetta er orðið svo hversdagslegt. Jafnvel litlir krakkar eru alveg hljóðir og kippa sér ekkert upp við þetta,“ segir Kristjana Aðalgeirsdóttir, sendifulltrúi svissneska Rauða krossins, sem stödd er í Úkraínu.

Þegar blaðamaður ræddi við Kristjönu á þriðjudaginn var hún stödd í loftvarnabyrgi, enda var þá einungis klukkustund liðin frá því að Rússar hófu flugskeytaárásir sínar þann daginn. „Ég sit hérna í loftvarnabyrginu, það rigndi sprengjum yfir Kænugarð rétt áður en við byrjuðum að tala saman. Það voru sendar sprengjur yfir allt landið,“ segir Kristjana, en hún er stödd í Kropíjvníjtsjí, borg sem staðsett er í miðri Úkraínu.

Kristjana segir alla vera orðna vana því að hlaupa niður í loftvarnabyrgi þegar heyrist í flautunum. „Fólk venst þessu, fólk aðlagast. Það er svo stórkostlegt við manneskjuna að aðlagast aðstæðum og gera það besta úr verstu stöðunni,“ segir hún.

Kristjana hefur starfað fyrir nokkur hjálparsamtök, en verkefni hennar í Úkraínu snýst um undirbúning húsnæðislausna fyrir flóttafólk áður en veturinn gengur í garð. Yfir sex milljónir Úkraínumanna eru á flótta innan Úkraínu og verkefni Kristjönu snýst um að koma þeim fyrir á öruggum stöðum.

„Það eru margir, og það eru oftast þeir sem eru berskjaldaðastir sem eru í þessum búðum. En þær eru oft í gömlum skólum, barnaheimilum, íþróttahúsum og svoleiðis. Margar þessar byggingar eru mjög gamlar og illa undirbúnar því að hýsa fólk til lengri tíma,“ segir Kristjana.

Húsnæðis­úrræði fyrir flóttafólk í Úkraínu eru oft í gömlum skólum, barnaheimilum eða íþróttahúsum.
Mynd/aðsend

„Verkefnið sem ég er að vinna að núna er að aðlaga þessar byggingar sem nú hýsa flóttafólk, gera viðgerðir, breytingar og annað til þess að þær geti hýst fólkið,“ segir hún og bætir við að þessar breytingar felist í því að auka einangrun, skipta um glugga, koma fyrir salernis- og eldunaraðstöðu og svo framvegis.

Þá segir Kristjana úkraínska veturinn geta orðið mjög kaldan. „Það getur farið alveg niður í þrjátíu stiga frost og það er það sem við erum að búa okkur undir.“

Árásir Rússa hafa að undanförnu mestu snúið að orkuverum og innviðum tengdum þeim. Einn hluti verkefnis Kristjönu snýst um undirbúnings þess ef til rafmagnsleysis kemur. „Núna í dag erum við rafmagnslaus. Ég sit hérna með höfuðljós á mér því það er ekkert rafmagn,“ segir Kristjana.

Hún segir úkraínsku þjóðina vera stórkostlega. „Þau hafa tekið þessu með þrautseigju og það er mikill baráttuvilji í þeim. Það er mikil bjartsýni. Það er ekki spurning fyrir þeim að þau eru að fara að vinna þetta stríð. Það er bara spurning hvað það mun taka langan tíma og hversu mikilla fórna það mun krefjast.“

Kristjana segir að þrátt fyrir að margir Úkraínumenn séu orðnir vanir því að hlaupa niður í loftvarnabyrgi þegar loftvarnaflauturnar gjalla, og heimsfréttir sums staðar séu farnar að snúast um annað, þá megi þetta stríð ekki gleymast.

„Þetta má ekki gleymast, það eru yfir sex milljónir manna á flótta innan Úkraínu og sjö milljónir í Evrópu, meðal annars á Íslandi. Þetta snertir okkur öll,“ segir hún.

Það þarf að huga að ýmsu þegar reynt er að einangra húsnæði fyrir veturinn.