Pallborðsumræða um loftslagsmál mun fara fram í Norræna húsinu klukkan fimm í dag undir heitinu „Loftslagskrísa, lýðræði og sameiginlegar aðgerðir“. Ræðumenn vilja fyrst og fremst leggja áherslu á að meginvandamálið í loftslags- og umhverfisumræðunni sé það pólitíska, efnahagslega og félagslega kerfi frekar en einstaklingurinn og ákvarðanir hans.

Einnig benda stjórnendur á að COP27 ráðstefnan sem fór nýlega fram í Egyptalandi hafi verið mikil vonbrigði í augu margra, þar sem hin árlega ráðstefna virtist ekki boða aukinn metnað og aðgerðir gegn loftslagshamförum. Traust almennings á COP og samtakamátt þjóðarleiðtoga virðist fara dvínandi og telja ræðumenn það óvenjulegt að olíuiðnaðurinn hafi átt fleiri fulltrúa á ráðstefnunni en þau lönd sem hafa orðið verst úti vegna áhrifa loftslagsbreytinga.

Tölur frá Hagstofu Íslands frá árinu 2016 sýndu einnig að Ísland hafi verið með mesta losun koltvísýrings frá hagkerfi á einstakling innan ESB og EFTA svæðisins. Það ár var losun koltvísýrings frá hagkerfi í heildi sinni á hvern einstakling 16,9 tonn, miðað við 7,3 tonn sem var meðaltalið í ríkjum Evrópusambandsins.

„Íslensk stjórnvöld eru ekki að takast á við þessi einföldu verkefni eins og endurvinnslu."

Frá árinu 2008 hefur Ísland verið í þriðja til fjórða sæti í losun en frá árinu 2012 hafi losun aukist vegna flugreksturs og skipaflutninga. Málþingið mun þar með leggja áherslu á umhverfispóltík í íslensku samfélagi.

Valur Grettisson, ritstjóri Reykjavik Grapevine, verður stjórnandi umræðna og segir hann að þegar kemur að stöðu Íslands þá sé hinn almenni íslenski neytandi ekki vera vandamálið, heldur er það stóriðja og stefna stjórnvalda. Hann bendir einnig á að ekki sé hægt að slökkva á hinum frjálsa markaði eins og hann leggur sig. Vestræn samfélög verða engu að síður að átta sig á því að heimurinn er eins og hús með leka í þakinu og sá leki mun halda áfram að renna niður til allra hina landana.

„Íslensk stjórnvöld eru ekki að takast á við þessi einföldu verkefni eins og endurvinnslu. Almenningur finnur líka að kolefnisfótsporið er svo óeðlilega hátt sérstaklega í ljósi þess að meirihluti landsins er óbyggður,“ segir Valur.

Þátttakendur í umræðunum verða þau Auður Önnu Magnúsdóttir, framkvæmdastjóri Landverndar, Þorgerður María Þorbjarnardóttir, fyrrverandi formaður Ungra umhverfissinna, Bjartmar Oddur Þeyr Alexandersson, rannsóknarblaðamaður sem sérhæfir sig í umhverfismálum og Katrín Oddsdóttir, lögfræðingur og sérfræðingur nýju stjórnarskrárinnar.