Loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna (SÞ) sem haldin var í Madrid þessa vikuna lauk rétt í þessu. Óhætt er að segja að fæstir gangi sáttir frá borði; annaðhvort þeirrar skoðunar að allt of vægar aðgerðir til að sporna við áhrifum manna á hlýnun hnattarins hafi verið samþykktar eða öfugt: að samþykktar aðgerðir séu öfgakenndar og ónauðsynlegar.

Flestu frestað fram á næstu ráðstefnu

Umræðurnar sem fóru fram á ráðstefnunni eru þær lengstu sem hafa verið haldnar milli ríkja SÞ um loftslagsvána. Uppgefnir fulltrúar þjóðanna náðu loks samkomulagi um fyrirhugaðar aðgerðir í dag, þar sem markmiðið er auðvitað að draga úr losun kolefnis.

Ráðstefnunni átti að ljúka á föstudaginn en flestum varð fljótt ljóst að hún myndi dragast á langinn.
EPA

Ákveðið var að öll ríki þurfi að leggja fram nýjar samþykktar skuldbindingar í þeim efnum á næstu stóru loftslagsráðstefnu SÞ sem verður haldin í Glasgow á næsta ári. Viðræðum um vandamál á borð við hvernig ætti að hátta markaði með losunarheimildir var frestað þar til á næstu ráðstefnu.

Ráðstefnunni átti að ljúka á föstudag en snemma varð ljóst að hún myndi dragast eitthvað á langinn. Eftir tvo aukadaga af samningaviðræðum komust fulltrúar ríkjanna loks að samkomulagi sem felur í sér auknar hömlur á kolefnislosun sem hvert ríki verði að sýna fram á á næstu ráðstefnu.

Loftslagsaðgerðasinnar mótmæltu aðgerðaleysi ríkjanna á ráðstefnunni.
EPA

Stórveldin andvíg aðgerðum

Ríkin skiptust í tvær fylkingar á ráðstefnunni; Evrópusambandið og smáríki, sem vildu mun harðari aðgerðir til að draga úr losuninni og svo hinum: Bandaríkjamönnum, Brasilíu, Kína, Indlandi og fleirum sem lögðust gegn þessum tillögum. Málamiðlun náðist á milli þessara flokka og var samþykkt að hin stærri og ríkari ríki, sem studdu ekki frekari aðgerðir, þyrftu að minnsta kosti að sýna fram á að hafa staðið við fyrir fram samþykktar aðgerðir fyrir árið 2020, til að mynda Parísarsamkomulagið.

„Niðurstöður ráðstefnunnar eru dálítill hrærigrautur og eru þessar samþykktir langt frá því sem vísindin segja okkur að sé nauðsynlegt að gera,“ segir Laurence Tubiana, talsmaður Evrópsku umhverfisstofnunarinnar. „Mikilvægir leikmenn sem hefðu þurft að skila sínu á ráðstefnunni stóðu engan veginn undir væntingum en þökk sé bandalagi Evrópu-, Afríku- og Suður-Ameríkuríkjunum þá tókst okkur að ná fram því besta sem var mögulegt í stöðunni, þvert á vilja hinna stóru mengunarvalda.“