Mótmælendur á vegum Extinction rebellion, hóps sem hefur staðið fyrir loftslagsmótmælum í London síðastliðna mánuði, klifruðu upp á lest við lestarstöðina Canning Town í austurhluta London, norðaustan af Canary Wharf. Hópurinn mótmælti einnig á öðrum lestarstöðvum víða um borgina.

Fólk á leið í vinnu og upp á flugvöll í morgun reiddist mjög og henti tebollum og mat í mótmælendurna og drógu þá af þaki lestarinnar.

Þónokkrir hafa velt upp spurningum um hvers vegna mótmælendurnir ákváðu að mótmæla loftslagsvánni með því að reyna að stöðva lestir, frekar en bíla.

Tæplega 1200 manns hafa verið handteknir á árinu vegna mótmælanna. Leikarinn Benedict Cumberbatch tók þátt í setumótmælum með hópnum nú í vikunni. Hópurinn nýtur almennt séð mikillar hylli meðal loftslagsbaráttumanna, þó þeir hafi ekki verið sérlega vinsælir eftir athæfið við Canning Town.

Sadiq Khan, borgarstjóri London, fordæmdi athæfið og sagði umrædd mótmæli vera ólögleg.