Al­þingis­kosningar 2021 fara fram næst komandi laugar­dag, þann 25. septem­ber. Líkt og oft hefur komið fram skilar yngra fólk sér síður á kjör­stað.

Hins vegar getur veðrið næstu helgi orðið til þess að eldra fólk skili sér síður á kjör­stað. Hvað sem því líður þá er einn stærsti ef ekki stærsti nýji kjós­enda­hópur í Ís­lands­sögunni kominn með kosninga­rétt sem hann getur nýtt í fyrsta sinn á laugar­daginn.

Frétta­blaðið ræddi við nokkur ung­menni sem eiga það öll sam­eigin­legt að kjósa í fyrsta sinn.

Dýrfinna Mjöll hefur mikinn áhuga á stjórnmálum.
Mynd/Aðsend

Dýrfinna Mjöll Njálsdóttir, 18 ára nemi í Fjölbrautarskólanum í Breiðholti:

Ætlar þú að nýta þér kosningarétt þinn?

Já algjörlega.

Ertu búin að á­kveða hvað þú ætlar að kjósa?
Já, þetta var svona „three way tie,“ en ég er búin að á­kveða mig núna.

Hefur þú fylgst með um­ræðunni?

Já, bæði á netinu og líka bara í sam­fé­laginu, í vinnunni, skólanum og þannig. Í mínum aldurs­hópi þá er meira í gangi á netinu í kringum þetta. Það er meira frelsi til að segja skoðanir sínar þar. En ekki það þetta kemur alveg upp í skólanum og vinnunni.

Hvernig finnst þér um­ræðan hafa verið?
Hún er skemmti­leg en erfið. Mér finnst það vera besta leiðin til að orða það. Stundum er gaman að ræða þetta við fólk. Þetta er orðið svo­lítið eins og í Banda­ríkjunum þar sem fólk er með eða á móti þér. Það getur verið skemmti­legt að ræða þetta við ein­hvern sem stendur með þér en síðan verður þetta frekar leiðin­legt rifrildi við ein­hvern sem er alveg á móti þér.

Hvað í um­ræðunni hefur þér þótt á­huga­verðast?
Hversu mikið krakkar á mínum aldri, það er ein­hver þrá­hyggja þar að lækka skatta. Eins og þetta sé mjög per­sónu­legt mál fyrir þeim – þrátt fyrir að þessir krakkar séu varla komnir á vinnu­markaðinn og ekki fluttir út einu sinni. Þeir þurfa að varla að pæla í sköttunum sínum.

Hvaða mál skipta þig mestu máli?
Ég myndi segja lofts­lags­mál og jafn­réttis­mál.

Finnst þér að það eigi að lækka kosninga­aldur?
Mér finnst að um leið og þú þarft að borga ein­hverja skatta þá ættir þú að hafa kosninga­rétt. Um leið og peningarnir þínir eru notaðir í þjóðar­hags­muni þá átt þú skilið að velja í hvaða þjóðar­hags­muni þeir eru notaðir í.

Hvernig hefur þér fundist markaðs­setning flokkanna? Hefur hún náð til þín?

Það sem ég er að sjá á netinu að minnsta kosti.

Það er ekki til gott ís­lenskt orð til að lýsa markaðssetningu flokkanna, það er aðal­lega þetta enska orð „cring­ey“. Þetta er allt svo ýkt og vand­ræða­legt að horfa á.

En það eru sumar flottar poster aug­lýsingar sem maður er að sjá út í bæ. Til dæmis pírata aug­lýsingarnar á strætó – finnst þær vera frekar fínar.

Hvern myndir þú vilja sjá sem for­sætis­ráð­herra?

Ég er alveg sátt við Katrínu Jakobs­dóttur, en ég myndi kjósa Loga Einars­son í Sam­fylkingunni frekar.

Telur þú þig vera með mótaða pólitíska sýn?

Al­gjör­lega. Ég hef haft á­huga á pólitík hér og er­lendis frá því ég var 13, 14 ára.

Telur þú flokkana hafa nýtt sér sam­fé­lags­miðla nóg í að­draganda kosninga?

Já, Sjálf­stæðis­flokkurinn, Sam­fylkingin, Vinstri Grænir og Sósíal­ista­flokkurinn – ég hef séð mikið frá þeim en það eru nokkrir flokkar sem maður sér minna af, sem dæmi Mið­flokkurinn, Við­reisn. Það fer í raun eftir flokkum. Mér finnst eins og Mið­flokkurinn og Við­reisn séu frekar að koma með bæklinga og nýta sér eldri að­ferðir til að aug­lýsa sig.

Ólafur segir loftslagsmálin skipta sig mestu máli.
Mynd/Aðsend

Ólafur Atlason, 19 ára nemi við Hagfræðideild Háskóla Íslands:

Ætlar þú að nýta þér kosningarétt þinn?

Það ætla ég að gera.

Ertu búin að á­kveða hvað þú ætlar að kjósa?
Ekki beint, en ég er með útilokunaraðferð.

Hefur þú fylgst með um­ræðunni?

Já svona nokkuð vel.

Hvernig finnst þér um­ræðan hafa verið?
Hún er búin að vera, já, svona mikið um átök í fréttum og deilumál. Það hefur verið áhugavert að fylgjast með því.

Hvað í um­ræðunni hefur þér þótt á­huga­verðast?
Ég veit það ekki en mér finnst gaman að fylgjast með laxeldis umræðunni og umræðunni um loftslagsmál.

Hvaða mál skipta þig mestu máli?
Loftslagsmálin, tvímælalaust. Þegar uppi er staðið þá held ég að það skipti mestu máli.

Finnst þér að það eigi að lækka kosninga­aldur?
Nei, ég held að þetta sé mjög fínn aldur, 18 ára.

Hvernig hefur þér fundist markaðs­setning flokkanna? Hefur hún náð til þín?

Bara fín. Maður sér að allir stærstu flokkarnir ná að auglýsa sig lang mest eins og Sjálfstæðisflokkurinn með sína markaðsherferð. Ég er búinn að sjá miklu minna frá smærri flokkunum. Það er eiginlega svona kannski tveir til þrír flokkar sem eru gjörsamlega lang öflugastir í markaðsmálunum. Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin kannski einna mest áberandi.

Hvern myndir þú vilja sjá sem for­sætis­ráð­herra?

Sko mér finnst Katrín Jakobsdóttir alltaf flott. Annars er ég ekki alveg viss, er enn að velta þessu fyrir mér. Ég held að Katrín sé góð fyrirmynd fyrir stelpur og alla, það er það sem skiptir máli.

Telur þú þig vera með mótaða pólitíska sýn?

Já, ég er með einhverjar skoðanir í grunninn. Ég hef aldrei verið með neitt rosalega sterkar skoðanir.

Í rauninni skilgreini ég mig ekki sem hægri eða vinstri, það fer bara eftir málefnum.

Telur þú flokkana hafa nýtt sér sam­fé­lags­miðla nóg í að­draganda kosninga?

Ég held að það sé mun meira núna en hefur verið. Ég held að flokkarnir hafi lært svolítið á þetta og séð mikilvægi samfélagsmiðlanna, sem er gríðarlegt.

Salka ætlar að nýta kosningarétt sinn á laugardaginn.
Mynd/Aðsend

Salka Sigmarsdóttir, 18 ára nemi í Verslunarskóla Íslands:

Ætlar þú að nýta þér kosningarétt þinn?

Já.

Ertu búin að á­kveða hvað þú ætlar að kjósa?
Já ég er búin að ákveða mig.

Hefur þú fylgst með um­ræðunni?

Já.

Hvernig finnst þér um­ræðan hafa verið?

Stormasöm. Mér finnst allir vera að gagnrýna alla. Margt að koma fram núna sem gerist alltaf fyrir kosningar held ég.

Hvað í um­ræðunni hefur þér þótt á­huga­verðast?
Umræðan um heilbrigðiskerfið og hvernig það hefur verið á síðasta kjörtímabili.

Hvaða mál skipta þig mestu máli?
Loftslagsmál, heilbrigðismál og efnahagsmál.

Finnst þér að það eigi að lækka kosninga­aldur?
Nei mér finnst hann á fínum stað.

Persónulega vissi ég ekki neitt fyrir tveimur árum.

Hvernig hefur þér fundist markaðs­setning flokkanna? Hefur hún náð til þín?

Já markaðssetningin er búin að vera góð. Hún er búin að vera þannig hjá öllum flokkum. Maður tekur eftir þeim öllum á strætóskýlum, samfélagsmiðlum og svona.

Hvern myndir þú vilja sjá sem for­sætis­ráð­herra?

Örugglega Katrínu Jakobsdóttur áfram.

Telur þú þig vera með mótaða pólitíska sýn?

Já, ég myndi segja það.

Telur þú flokkana hafa nýtt sér sam­fé­lags­miðla nóg í að­draganda kosninga?

Já, mér finnst þeir vera nógu sýnilegir.