Amy Wickham, sérfræðingur hjá Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna, segir algert lykilatriði að loftslagsaðgerðir séu barnmiðaðar, að börn séu áhersluatriði þegar slíkar aðgerðir eru skipulagðar og að börnum sé gert kleift að taka þátt. Wickham var á landinu í síðustu viku, fundaði með ráðamönnum og kynnti stefnu UNICEF.

„Loftslagskrísan snýst um réttindi barna og börn munu þola alvarlegustu afleiðingar hennar. Á sama tíma bera þau minnstu ábyrgðina á henni og það er því skylda okkar að þau fái að taka þátt í þeim ákvörðunum sem við tökum í dag,“ segir Wickham.

Barnahjálp Sameinuðu þjóðanna sendi nýlega frá sér neyðarákall og óskaði eftir um tíu milljörðum Bandaríkjadala til að styðja við börn sem hafa orðið fyrir áhrifum stríðsátaka, náttúruhamfara og loftslagsbreytinga. Takist söfnunin er gert ráð fyrir að á næsta ári verði hægt að aðstoða 110 milljón börn í neyð í 155 löndum um allan heim. Í ákallinu segir framkvæmdastýra samtakanna, Catherine Russell, að aldrei hafi fleiri börn búið við neyð í heiminum vegna hamfara og stríðsátaka og að loftslagsváin auki enn frekar á þann vanda.

Amy hefur unnið að því í nærri áratug að innleiða barnmiðaðar aðgerðir í loftslagsmálum og segir að það hafi margt breyst á þessum tíma. Til að byrja með hafi fáir viljað hlusta á hana en í dag sjái hún að fleiri taki málið alvarlega og að á æ fleiri stöðum fái börn að taka þátt, að segja sína skoðun og aðstoða.

„Ungt fólk fær nú oftar tækifæri til að raunverulega hafa áhrif og það er risastórt skref. Þetta er ekki forgangsmál alls staðar en við erum að komast þangað. Bara á síðustu tólf mánuðum hef ég séð mikla þróun. En það er alltaf hægt að gera betur.“

Börn þola alvarlegustu afleiðingar loftslagskrísunnar að sögn sérfræðings UNICEF.
Fréttablaðið/Getty

Amy segir starfið geta tekið á en að það hjálpi að sjá von hjá ungu fólki. Hún rannsakaði fyrir COP27 hvað 167 lönd eru að gera til að bregðast við loftslagsvánni og flokkaði þau í fjóra flokka eftir því hversu góð viðbrögðin eru og hversu vel þau taka tillit til barna. Ísland var meðal landanna sem voru rannsökuð en Ísland var í flokki C sem þýðir að landið uppfyllti aðeins viðmið fyrir einn af fjórum flokkum.

Spurð hvar við ættum að byrja hér á landi segir Amy:

„Með því að upplýsa fólk. Þetta er nýtt, þessar barnmiðuðu aðferðir, og ég held að það sé best að byrja á því að kynna þær fyrir fólki og hvernig það getur nýtt sér þær. Á sama tíma er mjög gott að líta til þeirra sem standa sig vel og nýta sér þekkinguna sem þegar er til staðar.“

Hún segir að hingað til hafi hún fundið fyrir hiki við að innleiða þessar aðferðir. Mörg lönd séu mjög fókuseruð á að innleiða aðgerðir sem eigi að koma í veg fyrir loftslagsbreytingar en mjög mikilvægt að aðgerðir miði að því að aðlagast breytingunum sem þegar eru orðnar.