„Ég hef fylgst rækilega með og spurt hvaða hættur séu í bæjarlandi Akureyrar, ég er vön slíkum hættum að vestan,“ segir Ásthildur Sturludóttir, bæjarstjóri á Akureyri, vegna minnisblaðs frá Veðurstofu. Akureyri er meðal ellefu þéttbýlisstaða sem kanna þyrfti með tilliti til aurskriðuhættu, samkvæmt minnisblaðinu.

Fréttablaðið hefur fjallað um málið í vikunni en Ásthildur segir að sér hafi ekki komið þetta á óvart, því hún hafi verið búin að fara yfir þær skýrslur sem liggja fyrir. „Það er lágmarkshætta í bæjarlandinu á Akureyri eins og staðan er í dag.“

Hættan tengist hugsanlegum aurskriðum í hlíðum ofan við Innbæinn, einn elsta og syðsta hluta bæjarins. Kerfisbundið hefur verið unnið að því að minnka hættuna til dæmis með gróðursetningu svo jarðvegur bindist betur.

Skriðuföll urðu á þessum stað á tíunda áratug síðustu aldar og var þá farið í kerfisbundnar aðgerðir.

Nokkrar umræður urðu síðastliðið sumar um hvort brekkan gæti hreinlega brotnað niður vegna hugmynda um háhýsi við Tónatröð, íbúagötu ofan við Innbæinn. Ásthildur segir að ítarlegar jarðvegsrannsóknir þurfi alltaf að fara fram þegar byggð sé skipulögð.

„Loftslagsbreytingar geta hrundið af stað áhrifum á umhverfi okkar sem við þurfum að fylgjast vel með. En ég ítreka að þarna er talað um lágmarkshættu. Öryggi bæjarbúa verður alltaf númer eitt, tvö og tíu.“