Gísli Víkingsson, sérfræðingur hjá Hafrannsóknarstofnun, telur óvenju mikið af grindhvölum hafa strandað við Íslandsstrendur á undanförnum mánuðum. Hann segist þó ekki geta svarað hver vegna. „Menn hafa velt því fyrir sér hvað veldur hvalrekum í hundraðið ára og munu sjálfsagt seint vita hvernig stendur á því.“ Hvalrekar hafa verið áberandi síðustu vikur, en síðast í gær rak tvo grindhvali að ströndum Ólafsvíkur.

Að sögn Gísla gætu loftslagsbreytingar borið ábyrgð á aukinni tíðni hvalreka á síðustu árum. „Það er líklega nærtækast að tengja þessa hrinu við það.“ Fiskar og aðrar hvalategundir hafi hliðrar sér norðar vegna aukinnar hlýnunar hafsins og tekur Gísli þar dæmi um hrefnu, loðnu og hnúfubak. Því sé ekki ólíklegt að grindhvalir hafi einnig orðið fyrir áhrifum og ruglast þannig í rýminu.

Mistúlkun á ummælum

Gísli telur hvalaskoðun ekki vera beintengda hvalrekunum og taldi hann ummæli kollega síns þess efnis hafa verið mistúlkuð. „Hann var ekki að halda því fram að hvalrekinn hafi orsakast af hvalaskoðun, hann var einungis að nefna að atgangur hvalaskoðunarfyrirtækja á einhverjum stöðum væri heldur mikill og að eðlilegt væri að setja reglur í kringum það.“

„Grindhvalur er tegund sem er þekkt fyrir að ganga oft á land eins og sést hefur á Færeyjum en þeir hafa nýtt sér það í einhver árþúsundir.“ Aðspurður um hvort grindhvalir væru illa að sér í landafræði sagði Gísli ekki vilja gera upp á milli tegunda því öll dýr væru gáfuð á sínu sviði.

Dulin ráðgáta

Megnið af grindhvölum halda sér í í úthafinu og eru þeir að sögn Gísla ekki beinlínis strandhvalir. „Ef þeir koma af einhverjum ástæðum nálægt landi þá vilja þeir oft lenda í einhverjum ógöngum og ruglast.“

„Grindhvalir eru mjög félagslynd dýr og synda um í fjölskyldu hópum sem verða að stórum vöðum.“ Gísli segir mikla samheldni einkenna slíkar vöður. „Það gerir það að verkum að það fara gjarnar heilu hóparnir saman á land og hvað sem veldur því veit held ég enginn.“

50 grindhvalir strönduðu á Snæfellsnesi í síðasta mánuði.