Sex lofts­lagsaktív­istar á aldrinum 18 til 27 ára hafa heitið því að borða ekkert fyrr en þeir fá fund með fram­bjóð­endum til kanslara Þýska­lands eftir að Merkel stígur niður. Einn aktív­istanna fór í yfir­lið í gær­kvöld og var fluttur á spítala.

Hungur­verk­fallið hófst 30. ágúst þar sem illa hafði gengið að fá svör frá fram­bjóð­endunum Anna­lena Baer­bock, Armin Laschet og Olaf Scholz. Aktív­istarnir vilja að fram­bjóð­endurnir hitti þau á opin­berum fundi til að ræða að­gerðir í lofts­lags­málum.

Heldur áfram verkfallinu

Anna­lena Baer­bock ræddi við aktív­istanna sím­leiðis en vildi ekki hitta þau á fundi. Þá hafi allir þrír fram­bjóð­endurnir sent bréf á aktív­istanna þar sem þeir biðla til þeirra að hætta verk­fallinu og bjóða þeim að spjalla í ein­rúmi við sig eftir kosningarnar.

Boðið var ekki sam­þykkt og hungur­verk­fallið heldur á­fram. Þau í­treka að fundurinn eigi að vera opin­ber og fyrir kosningar ef hann eigi að skila árangri.

„Við viljum eiga heiðarlegt samtal um stöðuna sem við erum í og hvaða aðgerða er þörf," segir Mephisto, átján ára loftslagsaktívisti, við frétta­stofuna FAZ.

Fimm af sex aktívistum á blaðamannafundi. Henning Jeschke, Mephisto, Lina Eichler, Ruben Garbow, og Jacob Heinze.
Fréttablaðið/EPA

Sá sem fór í yfir­­lið er elstur í hópnum, hinn 27 ára Jacob Heinze. Hann var út­skrifaður af spítalanum í dag og heldur á­fram verk­fallinu. Hann mætti á blaða­manna­fund með hinum aktív­istunum.

Aktív­istarnir hafa á­­kveðið að setja fundar­­tíma fyrir fram­bjóð­endurna fyrst engin svör hafa borist og stefna nú á að halda fundinn 23. septem­ber klukkan sjö um kvöld. Ef fram­bjóð­endurnir þiggja boðið opin­ber­­lega mun verk­­fallinu ljúka.

Aktív­istarnir segja verk­­fallið vera líkam­­lega og and­­lega krefjandi en segjast vera von­­laus og uppi­­skroppa með ráð. „Kanslara fram­bjóð­endurnir hafa líf okkar í höndum sínum,“ sagði Lina Eichler, ní­tján ára gamall aktív­isti, við frétta­­stofu Spi­egel.